Skoðun

Hættu­merki - Hlut­drægni ráð­herra og lög­reglu

Huginn Þór Grétarsson skrifar

Dómsmálaráðherra er með í áróðursmyndbandi sem hefur þann tilgang að ýta undir að allir trúi þeim sem setja fram ásakanir um að hafa sætt ofbeldi. Þetta er í beinu framhaldi af því að fólk segist trúa konum sem saka Sölva um ofbeldi án þess að nokkuð hafi verið birt sem opinberi slík brot. Það eru mikil vonbrigði að sjá „yfirmanneskju“ dómstólanna haga sér með þessum óábyrga hætti.

Það að trúa án sannanna er allt annað en að vilja taka hart á ofbeldi. Ég vil taka á ofbeldi og tryggja þeim sem leggja fram kærur góða og vandaða málsmeðferð. Ég vil eins og aðrir að brotamanneskjur sæti ábyrgð. En ég er ekki í því að skipa mér í lið með kæranda eða þeim kærða áður en mál er afgreitt. Ég trúi ekki öllu sem ég heyri - heldur byggi ég ályktanir mínar á staðreyndum mála. Ekkert okkar hefur forsendur til að trúa öllu því sem sagt er í samfélaginu eða öllum þeim sem segjast hafa þolað eitthvað misjafnt. Þó flestir segi eflaust satt frá, er misjafn sauður í mörgu fé.

Í myndbandinu skipar ráðherra sér í hóp með fólki sem hefur beinlínis fullyrt að Sölvi hafi beitt ofbeldi, með því að segja konurnar sem kæra hann vera þolendur. Þarna er ráðherra kominn í lið með dómstóli götunnar.

Þessi þátttaka í að segjast trúa og styðja alla sem hrópa á torgi að þeir hafi sætt ofbeldi er virkilega óábyrgt af ráðherra, sem gerir sig í reynd vanhæfan til að sinna þessum málaflokki þar sem lykilatriði er að sönnunargögn ráði niðurstöðu mála, ekki „blind trú“. Jafnvel þó minnihluti þeirra sem er ásakaður reynist saklaus, þá eiga þeir þó rétt á því að yfirvöld (og ráðherra dómsmála) séu hlutlaus og „trúi“ engum fram yfir annan. Afstaða ráðherra og annarra opinberra starfsmanna á eingöngu að mótast af málsgögnum. Skilaboðin sem Dómsmálaráðherra sendir dómstólunum með þessari þátttöku í áróðri um að trúa, eru beinlínis hættuleg. Það er svo kannski ekki minna ámælisvert að Víðir úr lögreglunni birtist í sama myndbandi og segist trúa! Það er hlutverk lögreglunnar að rannsaka mál, ekki trúa aðilum í blindni. Skynsöm lögregla myndi segja: „Ég byggi niðurstöðu mína á málsgögnum, ekki eingöngu fullyrðingum málsaðila“.

Það er mín skoðun að bæði Áslaug og Víðir sýni af sér mikið dómgreindarleysi með því að fylkja liði með kærendum ofbeldis, gegn þeim kærðum, enda grundvöllur réttlátrar málsmeðferðar að yfirvöld og opinberir starfsmenn gæti hlutleysis.

Höfundur er baráttumaður jafnréttis og réttlátrar málsmeðferðar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.