Golf

Rory McIlroy endaði átján mánaða þurrkatíð í gærkvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rory McIlroy með bikarinn sem hann vann í gær.
Rory McIlroy með bikarinn sem hann vann í gær. AP/Jacob Kupferman

Eins og hálfs árs bið norður írska kylfingsins Rory McIlroy er á enda eftir að hann vann Wells Fargo Championship golfmótið í gærkvöldi.

McIlroy gerði þetta reyndar aðeins meira spennandi en hann þurfti á lokaholunni en var vel fagnað þegar sigurinn var í höfn.

Norður Írinn vinsæli lék lokahringinn á þremur höggum undir pari og vann mótið á einu höggi. Hann lent í smá vandræðum á átjándu holunni eins og áður sagði en mátti tvípútta af fjórtán metra færi til þess að tryggja sér sigurinn. Það tókst.

Skollinn á átjándu var sá eini hjá Rory á lokahringnum en hann var þá kominn með fjóra fugla.

McIlroy lék mótið á samtals 274 höggum eða á tíu höggum undir pari. Abraham Ancer frá Mexíkó varð annar á níu höggum undir pari og þriðji urðu síðan Norðmaðurinn Viktor Hovland og Bandaríkjamaðurinn Keith Mitchell sem báðir léku á átta höggum undir pari.

McIlroy fékk eina milljón dollara og 458 þúsund Bandaríkjadölum betur í sigurlaun eða meira en 181 milljón íslenskra króna.

Það fór ekkert á milli mála að Rory var mjög létt þegar hann horfði á eftir golfboltanum rúlla í holunum á átjándu og sigurinn var í höfn.

„Þetta er aldrei auðvelt. Mér leið líka eins og það sé mjög langt síðan,“ sagði Rory McIlroy eftir sigurinn.

Þetta var fyrsta mótið sem Rory vinnur síðan á HSBC Champions mótinu í Shanghæ í Kína í nóvember 2019.

McIlroy var að vinna Wells Fargo mótið hjá Quail Hollow klúbbnum í Norður Karólínu í þriðja sinn en hann vann mótið einnig 2010 og 2015.

„Þetta er einn af uppáhaldsstöðunum mínum í heiminum. Það er stórkostlegt að ná að enda þurrkatíðina og vinna hér., sagði McIlroy.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×