Bílar

Kia e-Soul - afar frambærilegur rafbíll í óræðum stærðarflokki

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Kia e-Soul.
Kia e-Soul.

Kia e-Soul er fimm manna rafhlaðbakur eða bíll af óræðri millistærð á milli hefðbundins hlaðbaks og jepplings, án þess að sé mjög hátt undir hann. Hann verður flokkaður sem hlaðbakur hér, aðallega vegna þess að hann nær ekki að vera jepplingur að mati blaðamanns.

Kia e-Soul á hlið.



Útlit

E-Soul á augljósar ættir að rekja til Soul, sem vakti mikla athygli þegar hann kom fyrst á markað árið 2008. Hann hafði einstaka lögun og skipti fólki í fylkingar eftir því hvort fólk elskaði hann eða fannst hann ekki eins glæsilegur. Vel þekkt ferli þegar djörf og nýstárleg hönnun er sett fram. Í dag hefur hann vanist og er ennþá mjög flottur.

Kia e-Soul að aftan og á hlið.

Aksturseiginleikar

E-Soul er frábær bíll að keyra, hann er afar kraftmikill. Mikið afl er almenn upplifun með rafbíla en e-Soul er afburða kraftmikill.

Hann hefur fínt grip í beygjum og er skemmtilegur að rúnta um í. Fjöðrunin er frekar stíf en ekki óþægileg. Hún hjálpar bílnum enda hefur hann mikið afl og þarf fína fjöðrun til að standa undir aflinu.

Notagildi

Bíllinn er rúmgóður og það er gott að umgangast hann. Það er sérstaklega magnað hvað það er gott að setjast inn í hann og stíga út úr honum. Staða ökumanns er fín og maður situr hátt og er vegsýnin mjög góð.

Skottið er ágætt en miðað við hvað bíllinn er stór þá er það í minni kantinum, 315 lítrar. Það er áhugaverð málamiðlun því rýmið aftur í er mjög gott og væsir ekki um fullorðna þar.

Innra rými Kia e-Soul.

Innra rými

Einfalt og smekklegt eru orðin sem fyrst koma upp í hugan þegar lýsa á innra rýminu. Praktíkst væri þar skammt á eftir enda er afar auðvelt að nota og venjast umhverfinu. Engar óvæntar uppákomur þar, nema þá kannski hversu góðar græjur voru í reynsluakstursbílnum. Hann var búinn öflugu hátalarakerfi frá Harman/Kardon. Í reynsluakstursbílnum var hraðamælir á skjá ofan á mælaborðinu.

Skiptingin er á einföldum hnapp sem snúið er til að velja D (Drive) eða R (Reverse) og svo er ýtt á hnappinn miðjan til að velja P (Park).

Drægni og hleðsla

E-Soul kemur í tveimur útfærslum, í fyrsta lagi með uppgefna drægni upp á 277 km frá 39 kWh drifrafhlöðu og í öðru lagi með uppgefna 452 km drægni frá 64 kWh drifrafhlöðu. Reynsluakstursbíllinn var sá síðarnefndi enda aflið afbragðs gott.

Undir „vélarhlífinni" á Kia e-Soul.

Minni rafhlaðan er um sex klukkustundir og tíu mínútur að hlaða sig á heimahleðslustöð, sú stærri er um níu og hálfa klukkustund.

Báðar eru þær undir klukkutíma að ná 80% hleðslu í hraðhleðslustöð samkvæmt upplýsingum frá umboðinu.

Verð og samantekt

Kia e-Soul kostar frá 4.990.777 kr. og upp í 6.290.777 kr. Þegar á heildina er litið er Kia e-Soul frambærilegur rafhlaðbaks-jepplingur sem er gaman að keyra og hefur fína drægni, sérstaklega með stærri rafhlöðunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×