Körfubolti

Helena sú fyrsta á öldinni til að vinna fjögur ár í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir í leik með Val á móti sínu gamla félagi, Haukum, í vetur.
Helena Sverrisdóttir í leik með Val á móti sínu gamla félagi, Haukum, í vetur. Vísir/Bára

Valskonur tryggðu sér deildarmeistaratitilinn í gærkvöldi með öruggum sigri á Snæfell og einn leikmaður liðsins hefur nú unnið þennan titil samfellt frá vorinu 2018.

Helena Sverrisdóttir var nefnilega að verða deildarmeistari í Domino´s deild kvenna fjórða árið í röð.

Helena hefur unnið þrjú undanfarin tímabil með Val en þar áður varð hún deildarmeistari með Haukum.

Helena hefur tekið þátt í 83 leikjum í deildarkeppninni undanfarin fjögur tímabil og lið hennar hafa unnið 72 af þessum leikjum eða 87 prósent leikjanna. Helena hefur spilað 58 deildarleiki með Val og liðið hefur unnið 54 þeirra eða 94 prósent.

DEILDARMEISTARAR! Valur er deildarmeistari Domino's deildar kvenna tímabilið 2020-2021! KKÍ óskar Val til hamingju!

Posted by KKÍ - Körfuknattleikssamband Íslands on Þriðjudagur, 4. maí 2021

Helena var með 11 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar á 17 mínútum á móti Snæfelli í gær en er með 13,6 stig, 9,5 fráköst og 4,2 stoðsendingar að meðaltali í leik í deildinni í vetur. Helena er að koma til baka eftir að hafa eignast barn í lok síðasta árs.

Helena er fyrsta körfuboltakonan á öldinni sem nær að verða deildarmeistari fjögur ár í röð.

Síðastar til að vinna deildina fjögur ár í röð voru leikmenn Keflavíkurliðins í lok 20. aldarinnar með Önnu Maríu Sveinsdóttur í fararbroddi. Keflavík vann fyrstu sex deildarmeistaratitlana eftir að úrslitakeppni kvenna var tekin upp vorið 1993.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×