Handbolti

Guðjón Valur krækir í Hákon Daða

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hákon Daði Styrmisson hefur verið í hópi bestu hornamanna Olís-deildarinnar undanfarin ár.
Hákon Daði Styrmisson hefur verið í hópi bestu hornamanna Olís-deildarinnar undanfarin ár. vísir/hulda margrét

Hornamaðurinn Hákon Daði Styrmisson gengur í raðir þýska B-deildarliðsins Gummersbach í sumar. Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach.

Hákon Daði leikur með ÍBV og er markahæsti leikmaður Olís-deildarinnar með 138 mörk. ÍBV er í 4. sæti deildarinnar.

Hann hefur skrifað undir tveggja ára samning við Gummersbach. Þar hittir hann fyrir Guðjón Val og annan Eyjamann, Elliða Snæ Viðarsson, sem gekk í raðir Gummersbach fyrir þetta tímabil.

Hákon Daði, sem er 23 ára, gekk aftur til liðs við ÍBV 2018 eftir tvö ár hjá Haukum. Hann var markahæsti leikmaður úrslitakeppninnar þegar Haukar urðu Íslandsmeistarar 2016.

Gummersbach er í 3. sæti þýsku B-deildarinnar og á í harðri baráttu um að komast upp í þýsku úrvalsdeildina. Gummersbach er einu stigi á eftir Hamburg og N-Lübbecke, tveimur efstu liðum deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×