Körfubolti

NBA dagsins: Tilþrifavörn Jokic á ögurstundu

Sindri Sverrisson skrifar
Nikola Jokic tryggði Denver Nuggets sigur í nótt.
Nikola Jokic tryggði Denver Nuggets sigur í nótt. AP/David Zalubowski

Zion Williamson virtist vera að tryggja New Orleans Pelicans framlengingu gegn Denver Nuggets þegar Nikola Jokic hóf sig á loft og þverneitaði honum um það með rosalegri vörslu.

Tilþrif Jokic eru meðal þess sem sjá má í NBA dagsins hér á Vísi. Auk sigurs Denver er þar afar mikilvægur 120-111 sigur Boston Celtics á Charlotte Hornets, og sigur New York Knicks sem kom sér aftur á rétta braut með því að vinna Chicago Bulls 113-94.

Klippa: NBA dagsins 29. apríl

„Hann [Williamson] ætlaði að troða og ég ætlaði að gera honum það erfitt. Ég reyndi að snerta bara boltann,“ sagði Jokic um lokasekúndurnar í sigri Denver. Hann skoraði 32 stig og kom í veg fyrir að Denver kastaði endanlega frá sér fínu forskoti.

Denver er í 4. sæti vesturdeildar og getur jafnað LA Clippers að stigum með því að vinna báða leikina sem liðið á inni. Pelíkanarnir þurfa hins vegar kraftaverk til að komast í úrslitakeppnina því þeir eru nú með fjórum töpum meira en Golden State Warriors sem eru í 10. sæti.

Boston er réttu megin við strikið í austurdeild en með jafnmörg stig og Miami Heat. Sigurinn í nótt var lífsnauðsynlegur því annars hefði liðið farið niður í 7. sæti, og verið með jafnmörg töp og Charlotte sem er í 8. sætinu.

Knicks eru komnir aftur á sigurbraut og spurning hvort þeir nái níu sigrum í röð aftur en þeir eru í það minnsta með tveimur töpum minna en Boston. Knicks unnu Chicago Bulls 113-94 og þar með eru Bulls í erfiðri stöðu í 11. sæti austurdeildar, með tveimur töpum meira en Washington Wizards. Liðin í 7.-10. sæti komast í umspil um sæti í úrslitakeppninni og nú eiga liðin um 10 leiki eftir hvert.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.