Handbolti

Já­kvætt að ég náði að rúlla á öllu liðinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðmundur fer yfir málin með íslenska liðinu í kvöld.
Guðmundur fer yfir málin með íslenska liðinu í kvöld. HSÍ

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari íslenska handboltalandsliðsins, var sáttur með tíu marka sigur sinna manna á Ísrael ytra í kvöld. Lokatölur 30-20 og Ísland komið á topp riðils fjögur í undankeppninni fyrir EM 2022.

„Ég er mjög sáttur með sigurinn og hvernig við gerðum þetta. Liðið var einbeitt og það voru allir klárir í þetta verkefni. Það er mjög sterkt að fá einungis á sig níu mörk í hálfleik,“ sagði Guðmundur í viðtali við RÚV eftir leik.

„Það var mjög jákvætt að ég náði að rúlla á öllu liðinu, bókstaflega. Ég náði þar með að hvíla mikilvæga leikmenn sem veitir ekkert af,“ sagði Guðmundur en næsti leikur er strax á fimmtudag er Ísland mætir Litáen ytra.

„Það lið sem var að spila hér í gær er ekki liðið sem verður að spila í Litáen á fimmtudaginn. Þeir eru ekki auðunnir á heimavelli, það var því mjög jákvætt hvað við náðum að rúlla vel á liðinu og dreift álaginu.“

„Það lið sem bíður okkar í Litáen er lið sem hefur haft miklu meiri tíma til að undirbúa sig heldur en við, við höfum ekki haft neinn tíma. En þetta er það sem EHF býður okkur upp á og við þurfum að komast í gegnum þetta saman,“ sagði landsliðsþjálfarinn að lokum. Viðtalið í heild sinni má finna inn á íþróttavef RÚV.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.