Handbolti

„Viss um að Gróttustrákunum líður ekkert sérstaklega vel“

Sindri Sverrisson skrifar
Bjarni Fritzson og Einar Andri Einarsson voru hressir í Seinni bylgjunni.
Bjarni Fritzson og Einar Andri Einarsson voru hressir í Seinni bylgjunni. Stöð 2 Sport

Þórsarar fengu mikið lof í Seinni bylgjunni í gærkvöld eftir sigurinn frækna gegn Val í Olís-deild karla í handbolta. Eftir sigurinn eygja Þórsarar svo sannarlega von um að halda sér í deildinni.

Þór er í 11. sæti, efra fallsætinu, en er nú aðeins tveimur stigum á eftir Gróttu. Þar að auki eiga liðin eftir að mætast og Þór vann fyrri leik sinn við Gróttu í vetur.

„Ég er viss um að Gróttustrákunum líður ekkert sérstaklega vel í dag. Þetta er búið að vera svolítið gott hjá þeim og þeir búnir að fá mikið lof, á meðan að Þórsararnir eru búnir að vera að berjast. En núna eru Þórsarar komnir, byrjaðir að pikka í þá, og láta vita að þeir séu að koma,“ sagði Bjarni Fritzson í Seinni bylgjunni.

Innslagið má sjá hér að neðan.

Klippa: Seinni bylgjan: Þórsurum hrósað eftir sigurinn á Val

Þórsarar sýndu þolinmæði og aga, og spiluðu langar sóknir í 25-22 sigrinum gegn Val í Höllinni á Akureyri á sunnudaginn:

„Við erum búnir að tala um það í allan vetur að þeir kunna sín takmörk. Það er erfitt að spila á móti liði sem kann sín takmörk,“ sagði Einar Andri Einarsson.

„Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort það hafi ekki verið talað um það fyrir leikinn að gefa sér tíma í allar sóknir. Þótt að höndin komi upp [til marks um að það sé að koma leiktöf] þá er ekkert panikk, og ef það er vesen þá er boltanum hent út í horn á Ihor og hann fer inn af endalínunni, liðið nær að skila sér til baka og stilla upp í vörn,“ bætti hann við.

Þjálfarinn með alla með sér í liði

Einar Andri kvaðst ánægður með störf Halldórs Arnar Tryggvasonar, þjálfara Þórs:

„Hann er á sínu fyrsta ári í þessari deild, ungur og efnilegur, og rétt eins og Arnar Daði [Arnarsson, þjálfari Gróttu] að ná ótrúlega miklu út úr sínu liði. Við vitum ekkert hvernig þetta fer en ef að Þórsarar fara niður geta þeir byggt á því áfram að vera með góðan þjálfara,“ sagði Einar Andri, og Bjarni tók undir:

„Við sjáum að strákarnir hafa trú á verkefninu. Það að ungur þjálfari nái að fá alla svona með sér í lið, og fylgja skipulaginu, það sýnir að hann er með „klefann“. Það er mjög gott í bakpokann hjá honum.“

Einar Andri segir að Þórsarar gætu með aðeins meiri heppni verið mun betur staddir:

„Það eru gæði í liðinu hjá þeim. Meiðslin hafa verið mikil og þeir fengu útlending sem þeir gátu ekki notað, og maður spyr sig hvernig staðan væri ef að þeir hefðu haldið aðeins betur heilsu og fengið útlending hægra megin á völlinn. Þá væri þetta lið með mikið fleiri stig.“


Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×