Um­fjöllun og við­töl: Þór Ak. – Valur 25-22 | Heima­menn skelltu Val

Rúnar Þór Brynjarsson skrifar
Vísir/Hulda Margrét

Valsmenn töpuðu tveimur síðustu leikjum sínum fyrir mánaðalangt kórónuveirustopp og þeir byrjuðu ekki vel eftir stoppið er þeir töpuðu fyrir Þór Akureyri.

Fyrri hálfleikurinn var mjög jafn og skiptust liðin á að skora. Þórsarar gáfu ekkert eftir enda í baráttu um að halda sæti sínu í deildinni. Hjá Þór stóð Jovan Kukobat uppúr í fyrri hálfleik en hann varði markið sitt vel.

Þórsarar mættu fullir sjálftrausts í seinni hálfleik og áttu þeir mjög góðan 4 marka kafla í byrjun leiks sem kom þeim yfir í 15- 12 og þar með var tónninn settur fyrir það sem koma skyldi. Þór keyrði á Valsara sem sáu ekki til sólar. Gestunum gekk mjög illa að koma boltanum framhjá Jovan Kukobat í marki Þórs en hann átti stórleik í marki heimamanna.

Valur reyndi og reyndi ekki komumst aldrei nægilega nálægt Þór sem tryggði sér að lokum dýrmætan sigur. Þór 25- 22 Valur.

Hverjir stóðu uppúr hjá Þór?

Jovan Kukobat var algjörlega frábær í markinu hjá Þór. Hann varði eins og berserkur allan leikinn. Jovan endaði með 17 varin skot. 43% vörslu.

Ihor Kopyshynskyi var markahæstur í liði Þórs með 9 mörk og næstur á eftir honum var Gísli Jörgen Gíslason með 4 mörk.

Hverjir stóðu uppúr hjá Val?

Markahæstur í liði Vals var Róbert Aron Hostert með 4 mörk.

Af hverju vann Þór?

Stöðuleiki í vörn og sókn skilaði sterkum heimasigri. Þór nýtti sóknir sínar vel og kom aldrei kafli sem Valur náði yfirhöndina. Jovan Kukobat hjálpaði svo sannarlega mikið til með sín 17 varin skot.

Hvað er næst?

Valur fær Fram í heimsókn fimmtudaginn 29. apríl í Origo höllinni. Þór tekur á móti toppliði Hauka föstudaginn 30. apríl.

Halldór Örn Tryggvason „Ég er mjög sáttur með þessi 2 stig“.

Sagan hjá Þór í vetur hefur verið að þeir hafa átt marga góða fyrri hálfleika en misst liðin framúr sér í þeim seinni. Hvað var öðruvísi í þessum leik?

„Menn eru ferskir núna og við fundum réttan takt, ég talaði minna í hálfleiknum og sendi menn að hita upp aftur. Það er rétt við erum búnir að vera slakari í seinni hálfleikjunum í vetur en þetta var bara flott“. Þór setti í nýjan gír í seinni hálfleiknum.

„Ég ætla rétt að vona að þessi gír sé kominn til að vera. Ég sagði við strákana að við ætluðum ekki að vera undir í baráttunni og við þurfum að stýra tempóinu í leikjunum okkar. Það er rétt undir mánuður eftir af þessu móti og við þurfum að gera þetta vel og gera þetta saman“.

Mikil stemning var í liði Þórs

„Liðsheildin skóp þennan sigur. Jovan var frábær í markinu. Menn stóðu þétt við bakið á hvor öðrum og skilaði liðsheildin sigrinum“.

Snorri Steinn Guðjónsson. „Við áttum ekkert skilið úr þessum leik“

„Þetta eru gríðarleg vonbrigði. Við töpuðum bara verskuldað á móti betra liðinu í dag. Við áttum ekkert skilið úr þessum leik og er ég miklu meira en fúll yfir þessari frammistöðu“. Völsurum gekk illa að koma boltanum framhjá Jovan Kukobat

„Við vorum með hræðilega færanýtingu. Hann var frábær í markinu, það var klárlega stærsti munurinn á liðunum í dag. Ég er óánægður með sóknarleikinn okkar, við förum með í kringum sextán dauðafæri í dag og er það þannig séð nægileg útskýring fyrir þessu tapi í dag en það var margt annað sem var ekki í lagi og heilt yfir mjög léleg frammistaða hjá okkur í dag.“

Valur tekur á móti Fram í næsta leik.

„Við þurfum að líta í eigin barm og heldur betur rífa okkur í gang. Það eru sex leikir eftir af þessu móti fyrir okkur og erum við langt frá því að vera nógu góðir til að teljast sem topplið. Við þurfum bara að viðurkenna og horfast í augu við það. Við gerum okkur grein fyrir því að ef við ætlum okkur að komast í úrslitakeppina þá þurfum við heldur betur að spýta í lófana,“ sagði Snorri Steinn að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.