Skoðun

Hyllir undir skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi

Halla Þorvaldsdóttir skrifar

Í umræðum á Alþingi þann 3. mars sl. kom fram í máli heilbrigðisráherra að skipulögð skimun fyrir ristilkrabbameini er í undirbúningi og að á fjárlögum þessa árs eru ætlaðar til hennar 70 milljónir kr.

Krabbameinsfélagið hefur lengi barist fyrir því að skimunin hefjist hér á landi og fagnar því mjög að hún sé nú að verða að veruleika. Ristilskimun hefur ítrekað verið til umræðu á Alþingi sl. 20 ár og frá og með árinu 2018 verið ætlað 70 milljónum til hennar á fjárlögum.

Ísland er eftirbátur hinna Norðurlandanna og margra Evrópulanda hvað þessa skimun varðar en hún er ein þriggja krabbameinsskimana sem alþjóðastofnanir mæla með. Krabbamein í ristli og endaþarmi er annað algengasta krabbameinið á Íslandi en undanfarin fimm ár hafa á hverju ári að meðaltali greinst 187 mein hér á landi og 68 látist úr þeim.

Árið 2016 styrkti velferðarráðuneytið Krabbameinsfélagið um 25 milljónir til að undirbúa umrædda skimun og félagið lagði að auki 20 milljónir í verkið með stuðningi Okkar líf.

Sérfræðilæknir var ráðinn til að undirbúa verkefnið, þróaður var hugbúnaður og keyptur nauðsynlegur tækjabúnaður. Af hálfu ráðuneytisins stóð til að hefja skimunina haustið 2017 á grundvelli undirbúningsins en af því hefur enn ekki orðið.

Krabbameinsfélagið hefur sent heilbrigðisráðuneytinu fyrirspurn og óskað eftir tímasettri áætlun fyrir verkefnið. Vonandi sýnir áætlunin að skimunin hefjist á þessu ári. Það væri frábær áfangi.

Höfundur er framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins. 




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×