Skoðun

Hyllir undir skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi

Halla Þorvaldsdóttir skrifar

Í umræðum á Alþingi þann 3. mars sl. kom fram í máli heilbrigðisráherra að skipulögð skimun fyrir ristilkrabbameini er í undirbúningi og að á fjárlögum þessa árs eru ætlaðar til hennar 70 milljónir kr.

Krabbameinsfélagið hefur lengi barist fyrir því að skimunin hefjist hér á landi og fagnar því mjög að hún sé nú að verða að veruleika. Ristilskimun hefur ítrekað verið til umræðu á Alþingi sl. 20 ár og frá og með árinu 2018 verið ætlað 70 milljónum til hennar á fjárlögum.

Ísland er eftirbátur hinna Norðurlandanna og margra Evrópulanda hvað þessa skimun varðar en hún er ein þriggja krabbameinsskimana sem alþjóðastofnanir mæla með. Krabbamein í ristli og endaþarmi er annað algengasta krabbameinið á Íslandi en undanfarin fimm ár hafa á hverju ári að meðaltali greinst 187 mein hér á landi og 68 látist úr þeim.

Árið 2016 styrkti velferðarráðuneytið Krabbameinsfélagið um 25 milljónir til að undirbúa umrædda skimun og félagið lagði að auki 20 milljónir í verkið með stuðningi Okkar líf.

Sérfræðilæknir var ráðinn til að undirbúa verkefnið, þróaður var hugbúnaður og keyptur nauðsynlegur tækjabúnaður. Af hálfu ráðuneytisins stóð til að hefja skimunina haustið 2017 á grundvelli undirbúningsins en af því hefur enn ekki orðið.

Krabbameinsfélagið hefur sent heilbrigðisráðuneytinu fyrirspurn og óskað eftir tímasettri áætlun fyrir verkefnið. Vonandi sýnir áætlunin að skimunin hefjist á þessu ári. Það væri frábær áfangi.

Höfundur er framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×