Handbolti

„Tímaramminn leyfir okkur því miður ekki að klára allt sem við þurfum að klára“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik í Olís-deild kvenna.
Úr leik í Olís-deild kvenna. vísir/hulda margrét

Allar líkur eru á því að gera þurfi breytingar á mótafyrirkomulagi hjá HSÍ til að hægt verði að klára Íslandsmótið. Stefnt er að því að hefja keppni á ný í lok næstu viku.

Á fimmtudag tekur ný reglugerð heilbrigðisráðherra vegna kórónuveirufaraldursins gildi. Meðal tilslakana sem reglugerðin kveður á um er að íþróttir verða leyfðar á ný, bæði æfingar og keppni. Íþróttabann hefur verið við lýði frá því á miðnætti miðvikudagskvöldið 24. mars.

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, var að vonum ánægður með tíðindi dagsins.

„Þetta eru frábærar fréttir, að það sé hægt að hefja íþróttir aftur. Við fundum um þetta en það má gera ráð fyrir því að við hefjum þær deildir sem við getum byrjað í lok næstu viku,“ sagði Róbert við Vísi.

Kvennalandslið Íslands á leiki í undankeppni EM eftir nokkra daga og framundan eru einnig leikir hjá karlalandsliðinu. Það setur strik í reikning HSÍ og óhjákvæmilegt að gera breytingar á mótahaldi til að ljúka tímabilinu.

„Við þurfum að gera einhverjar breytingar, það er klárt. Tímaramminn leyfir okkur því miður ekki að klára allt sem við þurfum að klára. En við ákveðum það næstu daga hvað nákvæmlega muni undan láta,“ sagði Róbert.

Hann segir enga ákvörðun hafa verið tekna með bikarkeppnina, hvort henni verði seinkað eða hún blásin af.

Aðeins tvær umferðir eru eftir í Olís-deild kvenna en öll liðin í Olís-deild karla eiga sjö leiki eftir fyrir Fram og KA sem hafa leikið einum leik færra.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.