Erlent

Þéttsetinn djammbekkur í kjölfar afléttinga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það var þétt setið víða í Lundúnum í gær.
Það var þétt setið víða í Lundúnum í gær. epa/Facundo Arrizabalaga

Það var mikið um fögnuð og glaum á Englandi í gær þegar veitingastöðum og öldurhúsum var aftur heimilt að taka á móti kúnnum og bera í þá mat og drykk utandyra.

Þrátt fyrir napurt veður var þétt setið og ljóst af myndum að fjarlægðartakmörk voru víða virt að vettugi þrátt fyrir varnaðarorð sérfræðinga. Í Lundúnum var götum sums staðar lokað, til að auka pláss fyrir borð og stóla.

Verslanir og líkamsræktarstöðvar opnuðu einnig á Englandi í gær en á Norður-Írlandi var tilskipun um að „halda sig heima“ afnumin og þá voru einhverjar afléttingar á Skotlandi og í Wales.

Lögregla fylgdist með en var ekki að framfylgja fjarlægðartakmörkunum.epa/Facundo Arrizabalaga

„Það er fullt alls staðar, þetta er eins og fögnuður,“ sagði einn gestur í samtali við BBC. „Í alvöru, þetta er svo góð tilfinning, manni líður eins og maður sé laus úr fangelsi. Við erum að halda upp á afmæli og þetta er besta gjöfin,“ sagði annar.

Einn íbúi í Soho sagði það ótrúlega tilfinningu að sjá fólk aftur á götunum að skemmta sér. „Ég hef saknað þess svo mikið,“ sagði hún.

Lögregla fylgdist víða með en var ekki að framfylgja sóttvarnareglum, þrátt fyrir að þær væru víða brotnar. Borgaryfirvöld í Westminster sögðust vita til þess að sums staðar hefðu of margir komið saman en að þau hefðu átt gott samstarf við rekstraraðila.

Sérfræðingar eiga eflaust eftir að fylgjast vel með þróun mála í kjölfar afléttinga.epa/Facundo Arrizabalaga

Sumir viðmælendur BBC sögðust upplifa ákveðinn kvíða yfir því að fjölmenna í fyrsta sinn í marga mánuði. „En um leið og þú sest niður til að fá þér bjór þá er það bara frábært,“ sagði einn. „Þetta er yfirþyrmandi en á góðan máta,“ bætti félagi hans við.

Margir sögðust fagna því að fólk gæti nú komið saman aftur og sögðust ekki hafa áhyggjur af fjöldanum. Sumir sögðust hafa verið bólusettir en aðrir að þeir hefðu farið í skimun áður en þeir fóru út á lífið.

Fyrr um daginn hafði forsætisráðherrann Boris Johnson hvatt fólk til að sýna áfram ábyrgðafulla hegðun og veirusérfræðingurinn Lawrence Young varaði við því að niðursveiflan í faraldrinum væri ekki bara tilkomin vegna bólusetninga heldur einnig vegna sóttvarnaaðgerða.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.