Skoðun

Hvernig sköpum við sjálfbær samfélög?

Una Hildardóttir skrifar

Í komandi kosningum verða atvinnuleysi, loftslagsmál og samgöngur ofarlega í huga margra. Framundan er endurreisnartímabil þar sem mikilvægt er að skapa störf og efla ferðaþjónustuna á ný en á sama tíma að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ísland hefur sett sér háleit markmið um kolefnishlutleysi en raunhæfar aðgerðir kalla á aukið samráð og samþættingu í framkvæmdum. Góður leiðarvísir í þeirri vegferð eru heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna en Ísland hefur skuldbundið sig til þess að vinna að innleiðingu þeirra til ársins 2030. Eitt þessa markmiða snýr að sjálfbærum borgum og sveitarfélögum. Stjórnvöld þurfa að stuðla að sjálfbærni borga og samfélaga, ekki einungis er kemur að umhverfisvernd og landnýtingu heldur einnig efnhagslegrar- og félagslegrar sjálfbærni.

Á komandi kjörtímabili er mikilvægt að skilgreina betur vaxtarsvæði innan höfuðborgarinnar með áherslu á nærliggjandi sveitarfélög. Það er mikilvægt að samfélagskjarnar sem liggja á jaðri höfuðborgarsvæðisins séu rýndir og metnir með sömu byggðarþróunarnálgun og sveitarfélög í dreifðari byggðum. Til þess að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu geti orðið sjálfbær þarf að tryggja að forsendur til atvinnusköpunnar séu til staðar innan kjördæmisins. Staðsetning opinberra stofnanna og starfa skiptir einnig miklu máli og tímabært er að dreifa þeim betur á höfuðborgarsvæðinu á annan hátt en að færa stöðugildi sem þegar eru fyllt á milli sveitarfélaga. Á sama tíma sjáum við hraða aukningu í störfum án staðsetningar sem kalla á aukna eftirspurn eftir samvinnurýmum, „cowork space“ , og litlum starfstöðum innan byggðarkjarna.

Með því að auka sjálfbærni sveitafélaganna á höfuðborgarsvæðinu getum við áorkað margt. Fjölbreytt starfsframboð innan þeirra getur dregið töluvert úr umferðarþunga á höfuðborgarsvæðinu. Það er bæði ósjálfbært og óskynsamlegt að flest öll störf hins opinbera séu staðsett í miðbæ Reykjavíkur eða í Borgartúni. Við sem kjósum að búa í nærliggjandi sveitarfélögum við höfuðborgarsvæðið viljum sækja vinnu í okkar nærumhverfi líkt og við sækjum okkar helstu þjónustu. Við val á búsetu eru 45 mínútna samgögnur til og frá vinnu ekki efst á lista í búsetuvali og því mikilvægt að við eflingu atvinnulífs standi okkur störf til boða í heimahögum. Forsendur til atvinnuuppbyggingar, samvinnuskrifstofur og öflugar almenningssamgöngur eru uppskrift að sjálfbærum samfélögum, öllum til hagsbóta.

Höfundur er forseti Landssambands ungmennafélaga og varaþingmaður Vinstri grænna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.