Skoðun

Tak­markanir á frelsi borgaranna í þágu lýð­heilsu - nýr dómur yfir­deildar Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu

Halldóra Þorsteinsdóttir skrifar

Þann 8. apríl sl. kvað yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu upp dóm þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að það færi ekki í bága við ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu að skylda foreldra til að láta bólusetja börnin sín áður en þau fara í leikskóla. Þetta er fyrsti dómur dómstólsins sinnar tegundar og fordæmisgildi hans mikið þegar kemur að þeirri grundvallarspurningu við hvaða aðstæður er heimilt að takmarka frelsi borgaranna í þágu lýðheilsu. Umrætt mál barst Mannréttindadómstólnum árið 2015 og vakti það töluverða athygli í Evrópu þar sem fjöldi ríkja hefur gripið til þess ráðs að skylda foreldra til bólusetningar barna sem viðbrögð við því að sífellt fleiri sniðganga bólusetningar. Engan óraði þó fyrir því að nokkrum árum síðar stæði heimurinn frammi fyrir viðlíka ógn og kórónuveirufaraldrinum og að tékkneska málið kynni að hafa mun víðtækara fordæmisgildi en talið var í upphafi.

Í málinu reyndi meðal annars á það hvort sektir, sem tékkneska ríkið lagði á foreldra sem ekki sinntu bólusetningarskyldu barna, og útilokun óbólusettra barna frá leikskólaplássi af sömu ástæðum fæli í sér brot gegn 8. gr. Mannréttindasáttmálans um friðhelgi einkalífs. Dómstóllinn sló föstu að enginn vafi væri á því að bólusetningarskylda fæli í sér verulegt inngrip í sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga og réttinn til friðhelgi einkalífs. Ljóst væri hins vegar að slíkt frelsi mætti takmarka að eftirtöldum skilyrðum uppfylltum: að um takmarkanirnar væri mælt í lögum, að takmarkanirnar stefndu að lögmætu markmiði (svo sem heilsuvernd almennings) og að þær væru nauðsynlegar til þess að ná umræddu markmiði.

Yfirdeildin komst að þeirri niðurstöðu með sextán atkvæðum gegn einu að skerðing umræddra réttinda væri réttlætanleg með hliðsjón af því lögmæta markmiði að vernda heilsu almennings og einkum viðkvæmustu hópanna. Í þeim efnum leit dómstóllinn m.a. til þess að þótt skyldubólusetning væri vissulega viðkvæmt mál væri hún skilvirkasta úrræðið til þess að stemma stigu við útbreiðslu sjúkdóma og tryggja hjarðónæmi. Þá yrði að meta umræddar aðgerðir út frá heildarhagsmunum samfélagsins en ekki sjónarhorni þeirra sem væru andvígir skyldunni. Loks yrði að játa tékkneska ríkinu svigrúm við mat á því hvaða leiðir væru farnar til þess að ná þeim markmiðum sem að var stefnt til verndar heilsu almennings.

Dómar Mannréttindadómstólsins hafa almennt töluvert vægi við túlkun á sambærilegum íslenskum mannréttindareglum. Þau sjónarmið sem finna má í framangreindum dómi gætu þannig haft áhrif á hagsmunamat íslenskra dómstóla þegar kemur að því að vega og meta réttindi einstaklinga gagnvart heildarhagsmunum samfélagsins.

Skilyrði sem stjórnarskráin setur inngripi í friðhelgi og frelsi fólks

Í íslensku stjórnarskránni er víða kveðið á um frelsi borgaranna til athafna og friðar um persónulega hagi. Þannig er t.d. kveðið á um það í 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar að engan megi svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum og í 4. mgr. 66. gr. er fjallað um rétt þeirra sem dvelja hér löglega að vera frjálsir ferða sinna. Þá er í 71. gr. fjallað um að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Þessu frelsi má hins vegar setja skorður ef mælt er fyrir um takmörkunina í lögum, ef takmörkunin stefnir að lögmætum markmiðum og ef hún er nauðsynleg í lýðræðissamfélagi. Leikur enginn vafi á því að almannahagsmunir tengdir lýðheilsu eru meðal þeirra atriða sem talist geta til réttlætanlegra markmiða í þessum skilningi.

Í tengslum við viðbrögð stjórnvalda við kórónuveirufaraldrinum ber alloft á góma hvort og þá hvaða heimildir ríkið hefur til inngrips í stjórnarskrárvarið frelsi einstaklinga. Í þeim efnum er ljóst að allar takmarkanir verður að máta við fyrrgreind skilyrði. Þannig var það til dæmis niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í liðinni viku að skilyrðinu um að lög mæltu fyrir um takmörkun væri ekki fullnægt varðandi skyldu einstaklinga til þess að dvelja á sóttkvíarhóteli. Hér má þó geta þess að í úrskurðinum var tekið fram að stjórnvöld hefðu haft ,,brýnt tilefni til að grípa til sóttvarnaráðstafana og hafa það enn“. Er þannig ekki útilokað að niðurstaðan hefði orðið önnur ef fullnægjandi lagastoð fyrir aðgerðinni hefði verið til staðar.

Af dómi Mannréttindadómstólsins í fyrrgreindu máli leiðir að langt má ganga í að takmarka frelsi einstaklinga í þágu almannahagsmuna og lýðheilsu. Segja má með nokkurri einföldun að þar gildi meginreglan um að fórna megi minni hagsmunum fyrir meiri. Grundvallaratriðið er þó alltaf að aðgerðir fullnægi þeim lágmarksskilyrðum sem mælt er fyrir um í stjórnarskrá, meðal annars eins og hún er túlkuð til samræmis við Mannréttindasáttmála Evrópu. Sé skilyrðunum mætt má síðan af dómi Mannréttindadómstólsins ráða að hann játar ríkjunum ríkt svigrúm til þess að meta hvaða leiðir eru farnar til þess að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.

Höfundur er héraðsdómari og lektor við lagadeild HR.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.