Handbolti

KA fær tvo lykilmenn frá FH auk Óðins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Núverandi leikmenn FH og verðandi leikmenn KA, Arnar Freyr Ársælsson og Einar Rafn Eiðsson.
Núverandi leikmenn FH og verðandi leikmenn KA, Arnar Freyr Ársælsson og Einar Rafn Eiðsson. vísir/vilhelm

KA heldur áfram að hnykla vöðvana á félagaskiptamarkaðnum og hefur fengið tvo sterka leikmenn frá FH, þá Einar Rafn Eiðsson og Arnar Freyr Ársælsson.

Fyrr í dag var greint frá því að Óðinn Þór Ríkharðsson væri á leið til KA fyrir næsta tímabil en hann hefur leikið í Danmörku undanfarin þrjú ár.

KA staðfesti þessi tíðindi í dag og greindi enn fremur frá því að þeir Einar Rafn og Arnar Freyr væru á leið til félagsins. Þremenningarnir skrifuðu allir undir tveggja ára samning við KA.

Einar Rafn er örvhent skytta sem hefur leikið með FH undanfarin ár. Arnar Freyr er rétthentur hornamaður sem kom til FH frá Fram 2016. 

Einar Rafn og Arnar Freyr voru báðir í liði FH sem varð bikarmeistari 2019, deildarmeistari 2017 og komst í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn 2017 og 2018.

KA er á sínu þriðja tímabili í Olís-deildinni eftir að félagið byrjaði aftur að keppa undir eigin merkjum.

KA er í 9. sæti Olís-deildarinnar með fimmtán stig eftir fjórtán leiki. 


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×