Körfubolti

Finnur það alla leið til Reykjavíkur að það nötrar allt í Njarðvík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Hester og félagar í Njarðvík hafa tapað sex leikjum í röð og eru komnir í fallbaráttu í Domino´s deildinni.
Antonio Hester og félagar í Njarðvík hafa tapað sex leikjum í röð og eru komnir í fallbaráttu í Domino´s deildinni. Vísir/Vilhelm

Í nýjasta Domino´s Körfuboltakvöldi var farið yfir stöðuna á liðunum sem skipa sex neðstu sætum deildarinnar nú þegar Domino´s deild karla er aftur komin í kórónuveiruhlé. Hér má sjá hvað menn höfðu að segja um liðin í níunda og tíunda sæti.

Liðin í níunda og tíunda sæti Domino´s deildarinnar eru lið sem flestir héldu að yrði að berjast mun ofar í töflunni en eru þess í stað í fallbaráttu þegar sex umferðir eru eftir af mótinu. Þetta eru lið Njarðvíkur og Tindastóls.

„Höttur er í harðri fallbaráttu við lið sem telst vera stórveldi í íslenskum körfubolta. Þetta eru Njarðvíkingar sem eru í tíunda sæti,“ sagði Kjartan Atli í upphafi umfjöllunar um Njarðvík.

„Maður finnur það, þótt að maður búi á höfuðborgarsvæðinu, að það nötrar allt í Njarðvík og þá er ég ekki að tala um jarðskjálfta,“ sagði Kjartan Atli og beindi orðum sínum til Hermanns Haukssonar sem spilaði á sínum tíma með Njarðvík.

„Þetta er ofboðslega skrýtið tímabil fyrir Njarðvíkinga, áhorfendur og aðdáendur Njarðvíkinga. Þetta er svona staða sem þekkist ekki þarna. Ég skil vel að fólk þar sé hundsvekkt með árangurinn því það er ekki eins og liðið sé illa mannað. Það vantar ekki leikmenn í þetta lið,“ sagði Hermann Hauksson, sérfræðingur í Domino´s Körfuboltakvöldi.

„Eins og staðan er í dag þá er liðið að mínu mati að spila lélegasta körfuboltann í deildinni. Þeir eru að láta niðurlægja sig í leikjum og hafa ekki átt möguleika í leikjum. Þetta er eitthvað sem enginn þekkir frá Njarðvík, hvernig þeir mæta og þetta andleysi,“ sagði Hermann sem var ekkert að skafa af.

Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá hvað Benedikt Guðmundsson og Hermann Hauksson höfðu að segja um liðin í níunda og tíunda sæti sem eru Njarðvík og Tindastóll.

Klippa: Dominos Körfuboltakvöld: Frammistöðumat á Njarðvík og Tindastól eftir sextán umferðir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×