Körfubolti

Popovich í hóp með Wilkens og Nelson

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Pop gefur skipanir.
Pop gefur skipanir. vísir/Getty

Gregg Popovich hefur fyrir löngu skráð sig á spjöld sögunnar í NBA körfuboltanum og hann komst í hóp merkra þjálfara í nótt.

72 ára gamli Popovich stýrði liði sínu, San Antonio Spurs, til sigurs gegn Chicago Bulls og var þetta sigur númer 1.300 hjá Popovich í NBA körfuboltanum en hann hefur þjálfað lið Spurs frá árinu 1996.

Aðeins tveir þjálfarar hafa unnið yfir 1300 sigra. Það eru þeir Lenny Wilkens sem vann 1332 leiki á þjálfaraferli sínum í NBA deildinni frá 1969-2005 en hann stýrði Seattle SuperSonics, Portland Trail Blazers, Cleveland Cavaliers, Atlanta Hawks, Toronto Raptors og New York Knicks og varð einu sinni NBA meistari.

Með flesta sigra í NBA sögunni er Don Nelson sem stýrði liði sínu til sigurs í 1335 skipti á árunum 1976-2010 en Nelson stýrði Milwaukee Bucks, Golden State Warriors (2x), New York Knicks og Dallas Mavericks en tókst aldrei að vinna NBA titilinn.

Það sem gerir árangur Popovich enn merkari er að alla þessa sigra hefur hann unnið með sama liðinu en hann hefur haldið tryggð við Spurs allan sinn aðalþjálfaraferil í NBA deildinni og gert liðið fimm sinnum að NBA meisturum, síðast árið 2014.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×