Skoðun

Mikil tæki­færi fram­undan í fast­eigna­tækni­iðnaði

Hjörtur Sigurðsson, Hlynur Guðjónsson og Eyrún Arnarsdóttir skrifa

Fasteignatækni (e. Proptech) er regnhlífarhugtak yfir tæknifyrirtæki sem vinna með fasteignir á einn eða annan hátt. Starfsemi þessara fyrirtækja getur falið í sér undirbúning framkvæmda, hönnun, uppbyggingu, rekstur, leigu og umbreytingu fasteigna með tækni, en öll eiga þessi fasteignatæknifyrirtæki það sameiginlegt að hafa tækniþróun og -notkun sem ráðandi þátt í starfsemi sinni.

Á Íslandi starfar fjöldi slíkra fyrirtækja og er fasteignatækni vaxandi iðnaður. Flest þessara fyrirtækja bjóða upp á eða eru að þróa hugbúnaðarlausnir og sum þeirra framleiða einnig tækjabúnað. Fyrirtækin eiga það mörg sameiginlegt að vinna með lausnir sem snúa að sjálfbærni með því að veita yfirsýn og hafa stjórn á kolefnisfótspori, auðlindanotkun og orku. Mörg þeirra myndu jafnframt flokkast undir það að vera svokölluð fjártæknifyrirtæki (e. Fintech) sem einnig er vaxandi grein hér á landi.

Á Norðurlöndunum hafa fasteignatæknifyrirtæki tengst í samtökum í hverju landi. Þannig hefur myndast net tengiliða þar sem fyrirtækin deila þekkingu á því hvernig nálgast megi fjárfesta sem hafa áhuga á þessum flokki fyrirtækja og viðskiptahraðla sem henta þeim.

Samtök iðnaðarins í samstarfi við Nordic Innovation House í New York stóð fyrir opnum rafrænum kynningarfundi um fasteignatækniiðnaðinn á Íslandi fyrir skömmu. Innan Samtaka iðnaðarins eru aðildarfyrirtæki sem starfa á sviði fasteignatækni og kynningarfundurinn var fyrsta skrefið í þá átt að efla tengslanet þessara aðila og auka upplýsingagjöf til fyrirtækja í fasteignatækniiðnaði.

Það eru mikil tækifæri fólgin í því að íslensk fasteignatæknifyrirtæki tengist í gegnum sambærilegt net og starfrækt er á Norðurlöndunum. Þannig opnast vettvangur fyrir fyrirtækin til að deila þekkingu og áskorunum. Einnig gæti opnast gátt til Norðurlanda og í því felast möguleikar á þátttöku í starfi nýrra samtaka á þeim slóðum. Við hvetjum áhugasama til að hafa samband við greinarhöfunda til að nálgast upplýsingar og taka þátt í starfi fasteignatæknihópsins á Íslandi innan Samtaka iðnaðarins og í starfi Nordic Innovation House í New York.

  • Höfundar:
  • Hjörtur Sigurðsson, framkvæmdastjóri VSB verkfræðistofu
  • Hlynur Guðjónsson, aðalræðismaður og viðskiptafulltrúi aðalræðisskrifstofu Íslands í New York
  • Eyrún Arnarsdóttir, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði Samtaka iðnaðarins


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Eins og…

Margrét Júlía Rafnsdóttir skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.