Neytendur

Selur allar vörur á 100 krónur og hefur ekki þurft að sækja í reynslu­banka pabba síns

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Stefán Franz Jónsson, eigandi 100kr.is, er sonur kaupsýslumannsins Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem sjálfur átti dollaraverslanir í Bandaríkjunum um aldamótin.
Stefán Franz Jónsson, eigandi 100kr.is, er sonur kaupsýslumannsins Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem sjálfur átti dollaraverslanir í Bandaríkjunum um aldamótin. Aðsend

„Þú sérð ekki oft þetta verð, hundrað krónur fyrir allt. Og það er búið að vera mjög mikið að gera,“ segir Stefán Franz Jónsson, stofnandi verslunarinnar 100kr.is í samtali við Vísi. Verslunin ber nafn með rentu – allar vörur sem þar eru til sölu kosta 100 krónur.

Stefán er 23 ára og hefur lengst af búið í Bandaríkjunum, þar sem hann útskrifaðist með BS-próf í hagfræði og viðskiptum. 

Hann segir að hugmyndin að 100kr.is hafi kviknað út frá svokölluðum „Dollar stores“ sem algengar eru vestanhafs, þar sem allar vörur kosta yfirleitt einn bandaríkjadal. Undirbúningur hófst svo í janúar og verslunin opnaði nú í mars. Hún er eingöngu vefverslun en er með bækistöðvar á Fosshálsi.

Íslendingar æstir í góðan díl

En hvernig gengur það upp að bjóða svona lágt verð hér á Íslandi? Stefán kveðst hafa farið á stúfana og keypt upp vörulagera.

„Það eru oft fullir lagerar, vörurnar kannski „out of season“ eða matvörur sem eru að nálgast síðasta söludag.“

Stefán segir verslunina hafa gengið afar vel og margt hafi þegar selst upp.

„Mér líður eins og fólk sé glatt því að á Íslandi er allt svo svakalega dýrt og þegar fólk sér góðan díl er það æst í að nýta sér hann,“ segir Stefán.

„Og svo er spurningin, þegar við erum búin með vörurnar hér, hvert næsta skref er. Nú er ég að horfa í kringum mig og spyrjast fyrir.“

Ekki þurft að sækja í reynslubankann hjá pabba

Faðir Stefáns er kaupsýslumaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson, sem meðal annars rak dollaraverslanir í Bandaríkjunum undir merkjum Bill‘s dollar stores og Bonus dollar stores um aldamótin. Stefán segir að hann hafi hingað til ekki sótt í reynslubanka pabba síns í þessum efnum.

„Hann er náttúrulega mjög mikið „Bónus“ og gerði það sjálfur svo hann hefur hvatt mig mikið til að prófa þetta. Hann hefur ekki hjálpað beint en ef þetta gengur vel er aldrei að vita hvað gerist.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×