Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Stjarnan 29-28 | Ragnar hetja Selfoss í dramatískum sigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ragnar Jóhannsson skoraði sigurmark Selfyssinga.
Ragnar Jóhannsson skoraði sigurmark Selfyssinga. vísir/rakel ósk

Selfoss vann í kvöld góðan heimasigur gegn Stjörnunni í Olís-deild karla með minnsta mun, lokatölur 29-28. Ragnar Jóhannsson var markahæstur í liði Selfoss með sjö mörk úr 10 skotum, en öll nema eitt komu í seinni hálfleik. Í liði Stjörnunnar var það Starri Friðriksson sem var atkvæðamestur með sjö mörk úr níu skotum.

Selfyssingar lentu í smá áfalli strax í upphitun, en Guðmundur Hólmar meiddist á hné þegar enn voru um 15 mínútur til leiks. Strákarnir frá Selfossi létu það þó ekki á sig fá og byrjuðu leikinn af krafti. Magnús Öder kom inn fyrir Guðmund Hólmar og var líflegur í byrjun leiks.

Eftir um fimm mínútna leik var staðan orðin 4-1 fyrir heimamönnum og þeir litu vel út. Garðbæingar tóku þó fljótlega við sér og unnu sig jafnt og þétt inn í leikinn. Fimm mínútum seinna var munurinn kominn niður í eitt mark og framundan var spennandi hálfleikur.

Selfyssinga juku forskotið aftur í þrjú mörk, en Stjarnan minnkaði aftur í eitt. Selfyssingar virtust þó alltaf hafa yfirhöndina og héldu forskotinu út allan hálfleikinn. Nökkvi Dan kom Selfoss í 16-14 þegar lítið var eftir af hálfleiknum og Stjarnan fékk séns til að minnka muninn í eitt mark úr aukakasti þegar leiktíminn var liðinn. Það tókst þó ekki og Halldór Jóhann og hans strákar gengu til búningsherbergja með tveggja marka forskot.

Stjarnan byrjaði seinni hálfleikinn betur, en þeir skoruðu fyrstu þrjú mörk hálfleiksins og komust þá yfir í fyrsta skipti í leiknum. Selfyssingar vöknuðu þá aftur til lífsins og sneru taflinu sér í vil enn á ný. Þegar um 12 mínútur voru búnar af seinni hálfleiknum var munurinn aftur orðinn þrjú mörk, staðan 21-18 fyrir Selfoss.

Leikurinn hélt áfram að vera kaflaskiptur, Stjarnan minnkaði í eitt mark og Selfoss komst enn eina ferðina í þriggja marka forskot. Þegar rétt rúmar fimm mínútur voru til leiksloka var staðan 26-25, og ljóst að við vorum að fara að fá enn einn háspennuleikinn í Hleðsluhöllinni.

Starri Friðriksson jafnaði metin 28-28 þegar 35 sekúndur voru eftir, en þá tók Halldór Jóhann, þjálfari Selfoss, leikhlé. Selfoss fór svo í lokasókn, og Ragnar Jóhannsson sem hafði átt stórleik í seinni hálfleik skoraði þegar aðeins nokkrar sekúndur voru til leiksloka. Stjarnan freistaði þess að jafna, en Selfyssingar náðu að brjóta á Tandra og aukakast dæmt. Stjörnumenn vildu fá eitthvað miklu meira fyrir brotið, en fengu ósk sína ekki uppfyllta. Björgvin Hólmgeirsson tók aukakastið, en veggurinn stóð vel og varði skotið. Niðurstaðan því eins marks sigur Selfyssinga.

Af hverju vann Selfoss?

Leikurinn var mjög jafn og spennandi, en Selfyssingar virtust alltaf vera skrefi á undan. Eftir að hafa misst Guðmund Hólmar í meiðsli í upphitun sýndu strákarnir frá Selfossi mikinn karakter og það virtist ekki hafa mikil áhrif á þeirra hugarfar að missa einn af sínum betri mönnum úr liðinu.

Hverjir stóðu upp úr?

Ragnar Jóhannsson vaknaði heldur betur til lífsins í seinni hálfleik. Raggi hefur haft hægt um sig eftir sterka byrjun í fyrsta leik, en hann fann algjörlega taktinn í síðari hálfleik í kvöld. Magnús Öder byrjaði leikinn vel, en hann kom inn í liðið fyrir Guðmund Hólmar. Það dró aðeins af Magnúsi þegar leið á en hann var óhræddur við að taka ábyrgðina þegar Guðmundur meiddist.

Hvað gekk illa?

Stjörnumönnum gekk illa að snúa leiknum sér í hag. Þeir náðu ótal sinnum að minnka muninn í eitt mark, en misstu Selfyssinga alltaf aftur fram úr sér. Það vantar eitthvað af leikmönnum í lið Stjörnunnar en þeir verða að grípa tækifærin þegar þau gefast ætli þeir sér að vinna ríkjandi Íslandsmeistara.

Hvað gerist næst?

Selfyssingar fara norður á Akureyri á föstudaginn þar sem þeir spila við KA. Selfoss fór með þessum sigri upp fyrir KA í deildinni, en það er aðeins eitt stig sem skilur þessi lið að og það er alls ekki gefið að sækja tvö stig í KA-heimilið.

Stjarnan fær Gróttu í heimsókn í næstu umferð. Grótta situr í níunda sæti deildarinnar með níu stig, þremur stigum á eftir Stjörnunni. Gróttumenn geta með sigri farið að banka almennilega á dyrnar að úrslitakeppnissæti, en Stjarnan þarf einnig á sigri að halda, ætli þeir sér ekki að falla aftur úr lestinni.

Halldór: Það er ekki verið að hugsa um velferð leikmannana

Halldór hefur áhyggjur af of miklu leikjaálagi.vísir/hulda margrét

„Þetta var hrikalega erfitt kvöld,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss, eftir sigur kvöldsins. „Gummi meiðist hérna í upphitun og við erum með eitthvað plan sem er farið strax 20 mínútum fyrir leik. Strákarnir voru bara frábærir við erfiðar aðstæður og spiluðu virkilega góðan leik. Stjarnan setti mikla pressu á okkur og nýttu sér sína styrkleika vel, en við gerðum það líka og ég er virkilega stoltur af strákunum.“

Halldór hafði ekki góðar fréttir að færa af Guðmundi og talaði um mikið leikjaálag. „Ég held að hann sé mjög líklega með slitna hásin. Það er mjög sennilega leikjaálagið sem hefur áhrif á þetta. Það er kannski allt í lagi að vera með smá pillu á HSÍ með það, ég held að menn hafi ekki alveg gert sér grein fyrir hvað þeir voru a fara út í með leikjaálag á leikmennina. Það er allavega ekki verið að hugsa um velferð leikmannana í öllum þessum leikjum, það er ljóst.“

Halldór var mjög ánægður með hvernig hans strákar tækluðu þetta verkefni í ljósi þess að einn af þeirra betri leikmönnum hafði meiðst í upphitun. „Við gerðum auðvitað nokkra feila í lokin, kannski voru menn orðnir þreyttir, Einar Sverris meiddur, Gummi meiddur og Ísak meiddur en við urðum bara að gefa allt í þetta. Frábært að vinna með einu marki og fá tvö stig í ljósi þess hvernig leikurinn spilaðist. Ég hefði verið hundfúll að fá bara eitt stig, hvað þá ekki neitt stig.“

„Við fáum á okkur 28 mörk, þeir spila sjö á sex stóran hluta leiksins en við erum að skora 29 mörk og þeir spila þrjú mismunandi varnarafbrigði þannig að ég get ekki verið annað en sáttur,“ sagði Halldór Jóhann.

Næsti leikur Selfoss er fyrir norðan gegn KA og Halldór fór aðeins yfir þann leik. „Ég vonast til að Einar geti spilað, en ég er ekkert alveg viss um það. Við tökum enga sénsa, það getur bara skapað fjórar til sex vikur í viðbót í meiðslum þannig að við ætlum að hugsa um velferð leikmannana. Þetta verður erfiður leikur, KA liðið er búið að vera frábært í vetur og ég þekki KA heimilið vel og ég veit að þar verður fólk til að styðja sitt lið en við ætlum bara að gera okkar besta þar og undirbúa okkur vel fyrir þann leik.“

Patrekur: Það þarf að ná í þessi stig ef maður ætlar að vera í úrslitakeppni

Patrekur hefði viljað fá betri úrslit á sínum gamla heimavelli.vísir/elín björg

„Ég er bara svekktur að ná ekki allavega í eitt stig,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar. „Þetta var hörkuleikur og við fáum frábæra markvörslu frá Adam í seinni hálfleik og færum okkur aðeins aftar. Það komu nokkrir sendingafeilar en við vorum að gera fínt í að skora sjö á sex. Það var kannski einhver heppnisstimpill yfir þeim í restina eins og markið hjá Hergeir, hann gerir þetta vel en við eigum að geta komið í veg fyrir þetta svo auðvitað er ég svekktur yfir þessu.“

Patrekur þjálfaði Selfoss og gerði þá að Íslandsmeisturum fyrir tveimur árum. Hann er því ekki óvanur háspennuleikjum í Hleðsluhöllinni. „Það voru margir hörkuleikir sem ég var með hérna og ég upplifði það núna líka með Stjörnunni. Þetta er bara jöfn deild og maður sér það. Hefðum við unnið þennan leik þá hefðum við komist í efstu fjóra en nú erum við bara númer níu eða eitthvað. Þetta er bara mjög jöfn deild og öll stigin skipa máli.“

Deildin í ár er mjög jöfn og Patrekur hefur ekki miklar áhyggjur að hans menn séu að falla úr lestinni eftir tap kvöldsins. 

„Það þýðir ekkert að væla yfir þessu, auðvitað er ég óheppinn, Óli Bjarki er búinn að vera öflugur hjá okkur í seinustu leikjum en hann er með tak í baki. Síðan missum við okkar eina örvhenta leikmann Pétur Árna en einn fingur fer úr lið og þá þurftum við að spila með nýjum mönnum sem eru kannski ekki búnir að spila mikið saman. Það var ekkert auðvelt að púsla þessu saman, en það var líka með Selfossliðið, missa Guðmund Hólmar í upphitun. Það er spilað þétt og það er ekkert meira á mitt lið heldur en annað.“

Stjarnan fær Gróttu í heimsókn í næstu umferð, en Grótta getur með sigri komist einu stigi frá Stjörnunni og hleypt miklu lífi í baráttuna um úrslitakeppnissæti. „Það eru allir leikir í þessari deild mikilvægir. Það þarf að ná í þessi stig ef maður ætlar að vera í úrslitakeppni og eitthvað ofar en það. Grótta eru aldeilis búnir að standa sig vel. Ég horfði á leikinn þar sem að þeir yfirspiluðu Selfoss þannig að það verður verðugt verkefni. Menn eru auðvitað svekktir núna en það er bara næsti leikur og nýtt tækifæri.“

Ragnar: Er ekki sagt að maður sé sinn versti óvinur?

Ragnar skoraði sigurmark Selfyssinga.stöð 2 sport

„Þetta var ótrúlega ljúft að sjá boltann inni og sigra,“ sagði Ragnar Jóhannsson, leikmaður Selfoss eftir sigurinn í kvöld. „Mér fannst við eiga þetta skilið og leiddum nánast allan leikinn. Þetta var hrikalega flottur leikur hjá okkur miðað við áföllin sem við lentum í fyrir leik og ég er bara hrikalega ánægður.“

Ragnar talaði um góða liðsheild og að meiðsli Guðmundar hafi ekki haft of mikil áhrif á strákana. „Þegar eitthvað svona gerist þá bara eflir það hópinn og við stóðum undir því í dag.“

Eftir flotta byrjun í fyrsta leik hefur Ragnar haft hægt um sig, en hann fann taktinn aftur í dag. „Þetta er bara kollurinn á manni. Það er margt í hausnum á manni og er ekki sagt að maður sé sinn versti óvinur og vonandi er það bara búið.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.