Skoðun

Sóknar­færi Pírata

Magnús D. Norðdahl skrifar

Sérstaða Pírata felst í að vera frjálslynt, félagshyggjusinnað og and-popúlískt umbótaafl í íslensku samfélagi. Árangur Pírata á þeim níu árum sem hreyfingin hefur starfað má rekja til þessarar sérstöðu. Meðlimir hreyfingarinnar hafa tekið öflugan þátt í stjórnmálastarfi á sveitarstjórnarstigi og einnig á Alþingi. Það má teljast einstakur árangur að hafa náð tíu þingmönnum í alþingiskosningunum árið 2016. Þingmönnum Pírata fækkaði í kosningunum árið 2017 en nýlegar skoðanakannanir benda til þess að Píratar hafi alla burði til að fjölga þeim aftur og toppa þann árangur sem náðist árið 2016. Vinsældir Pírata eru til marks um þær miklu væntingar sem landsmenn hafa til hreyfingarinnar og að stefna hennar höfði til fólks.

Jarðvegur lýðskrums

Íslenskt samfélag hefur ekki farið varhluta af heimskreppunni sem nú geysar. Atvinnuleysi á Íslandi var 12,8% í janúar síðastliðnum og er það til marks um þá efnahagserfiðleika sem blasa við þjóðinni. Þegar kreppir að skapast jarðvegur fyrir popúlisma sem getur tekið á sig ýmsar myndir. Ein birtingarmyndin er hatursorðræða þar sem kynt er undir útlendingahatri. Önnur birtingarmynd felst í óábyrgum loforðaflaumi stjórnmálamanna þar sem sjálfkrýndir frelsarar vaða úr einu byggðarlagi í annað og lofa fjárútlátum eins og enginn sé morgundagurinn.

Við aðstæður sem þessar er stefna Pírata mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Píratar eru í eðli sínu framsæknir, byggja á gagnrýninni hugsun og vilja að stefnan hverju sinni taki mið af fyrirliggjandi gögnum og þekkingu. Í þessu felst það sem kalla mætti píratískan and-popúlisma, sem er í senn svarið við lýðskrumi annarra flokka og lykillinn að farsælu gengi Pírata í komandi alþingiskosningum. Þetta á við í víðu samhengi, allt frá umræðu um útlendingamál yfir í umræðu um sértækar framkvæmdir á landsbyggðinni.

Óttinn við árangur Pírata

Aðrir flokkar virðast sumir óttast gott gengi Pírata. Til marks um það má nefna órökstuddar fullyrðingar þess efnis að hreyfingin sé óábyrg og geti ekki tekið þátt í myndun ríkisstjórnar. Flestir muna eftir því þegar Bjarni Benediktsson, núverandi fjármálaráðaherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti því yfir í tengslum við fyrri kosningar að Sjálfstæðisflokkurinn útilokaði enga flokka til samstarfs að frátöldum Pírötum.

Ótti hægrisinnaðra íhaldsafla er tilkominn vegna þess að andstæðingar Pírata vita sem er að Píratar geta gegnt lykilhlutverki við að koma hér á félagshyggjusinnaðri ríkisstjórn eftir næstu kosningar. Því er viðbúið að töluvert muni mæða á Pírötum í komandi kosningabaráttu, sem kann af hálfu annarra flokka að verða óvægin og neikvæð í garð Pírata. Svar Pírata er einfalt og felst í því að virða grunnstefnu hreyfingarinnar og ganga fram með málefnalegum og jákvæðum hætti í hvívetna, hvort heldur sem er á landsbyggðinni eða í Reykjavík.

Píratísk samfélagssýn og erindi mitt í stjórnmál

Það er von mín sem væntanlegur frambjóðandi Pírata í næstu alþingiskosningum að hreyfingin taki þátt í því að umbreyta íslensku samfélagi til hins betra. Samfélagi þar sem réttindi minnihluta- og jaðarhópa eru virt, þar sem rekin er mannúðleg stefna í málefnum flóttafólks og annarra sem eiga um sárt að binda, þar sem notendur geðheilbrigðisþjónustu fá alla þá aðstoð sem þeir þurfa óháð búsetu í landinu og síðast en ekki síst samfélagi þar sem allir íbúar búa við mannsæmandi kjör.

Á starfsferli mínum sem sjálfstætt starfandi lögmaður hef ég sinnt fólki sem hefur átt undir högg að sækja af ýmsum ástæðum og átt sér fáa ef einhverja málsvara. Ber þar hæst störf mín í þágu hælisleitenda en sá málaflokkur er pólitískur í eðli sínu. Barátta mín á þeim vettvangi hefur skilað árangri fyrir fjölda einstaklinga og fjölskyldna sem áður horfðu fram á brottvísun úr landi en fengu tækifæri til að setjast hér að og taka þátt og leggja sitt af mörkum til íslensks samfélags.

Sem stjórnmálamaður langar mig almennt að útvíkka baráttu mína þannig að unnið sé að heildstæðum kerfisbreytingum til hagsbóta fyrir alla þá hópa samfélagsins sem hafa borið skarðan hlut frá borði. Baráttan er enn sú sama en er háð á öðrum og stærri vettvangi stjórnmálanna þar sem tækifæri gefst til að efla hag fleiri einstaklinga á heildstæðum grunni.

Sem frambjóðandi á landsbyggðinni, þ.e. Norðvesturkjördæmi, tel ég mikilvægt að öll innviðauppbygging taki mið af því markmiði að búa til fjölbreytt og vel launuð störf til framtíðar. Hvort sem það er afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum, breikkun Vesturlandsvegar eða efling tekjustofna sveitarfélaga verður ávallt að hafa í heiðri gagnrýna hugsun og taka mið af fyrirliggjandi gögnum og þekkingu og virða vilja íbúanna. Þannig næst árangur.

Með and-popúlískri og málefnalegri orðræðu gefst Pírötum einstakt tækifæri á næstu mánuðum til þess að sýna íslensku þjóðinni, sem í grunninn er frjálslynd og umbótasinnuð, að hreyfingin getur og ætlar að verða burðarás í myndun umbótastjórnar eftir næstu alþingiskosningar.

Höfundur er lögmaður og sækist eftir fyrsta sæti á lista Pírata í Norðvesturkjördæmi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×