Erlent

„Þjóð­fé­laginu til há­borinnar skammar“ að fólk bíði í röðum eftir mat

Sylvía Hall skrifar
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins.
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins. Vísir

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, segist ekki óttast að flokkurinn detti út af þingi í næstu kosningum. Samkvæmt nýrri könnun Maskínu fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis mælist flokkurinn með um það bil fjögur prósent og nær ekki manni inn.

„Ég óttast það ekki á nokkurn hátt vegna þess að við erum í allt annarri stöðu núna en við vorum fyrir síðustu kosningar, bæði fjárhagslega og reynslunni ríkari um það hvernig við eigum að haga okkur. Við getum núna farið af stað og kynnt þessi málefni sem við stöndum fyrir, sem eru aðallega gegn fátækt barna og þeirra hópa sem minnst hafa og verst hafa það í þjóðfélaginu í dag,“ sagði Guðmundur Ingi í Víglínunni í dag.

Hann segir flokkinn hafa skýra stefnu sem eigi ríkt erindi á þingi og telur ólíklegt að annar flokkur sé afkastameiri þar sem tuttugu frumvörp séu nú í þinginu frá tveimur þingmönnum Flokki fólksins.

„Við erum að berjast fyrir það góðum málstað og það er okkur í þjóðfélaginu til háborinnar skammar að við séum með fólk í biðröðum eftir mat og við skulum ekki sjá til þess að fólk fái framfærslu sem er hægt að lifa á, heldur þurfi það að fara í biðröð til að ná í mat. Þetta er okkur til skammar. Við erum að skatta bætur þeirra sem eru í fátækt.“

Telur kjósendur flokksins ekki vera spurða 

Aðspurður hvers vegna fylgið mælist ekki hærra segist Guðmundur hafa ýmsar spurningar varðandi framkvæmd skoðanakannanna. Sjálfur hafi hann aldrei verið spurður og raunar fáir sem hann þekki.

„Ég fór að velta þessu fyrir mér í sambandi við skoðanakannanir og ég fór að hugsa aftur í tímann; ég hef aldrei lent í skoðanakönnun. Þá fór ég að hugsa, hverjir eru í skoðanakönnunum? Ég fór að spyrja alla sem ég hitti hvort þeir hafi tekið þátt í skoðanakönnunum og ég er búinn að finna einn. Og ég er búinn að spyrja alveg helling af fólki.“

Hann tali meira við eldri borgara, og því telur hann líklegt að kjósendur flokksins séu ekki að taka þátt í slíkum skoðanakönnunum. Flokkurinn eigi meira inni en kannanir bendi til.

„Svo er annað sem ég tók eftir í skoðanakönnuninni ykkar, það eru 14,4 prósent sem svara ekki svo það er nóg af prósentum til að ná í.“

Eldri borgarar hafi orðið eftir í faraldrinum 

Að mati Guðmundar er brýnt að leggja áherslu á málefni eldri borgara þar sem margir þeirra búi við ófullnægjandi kjör. Hann segir flesta hópa hafa fengið eitthvað út úr kórónuveirufaraldrinum, en ekki eldri borgarar.

„Eitt sem er þessari ríkisstjórn til háborinnar skammar er það að það fengu allir eitthvað út úr Covid nema eldri borgarar. Eldri borgarar hafa bara fengið vísitöluhækkun, ekkert annað. Ekki einu sinni eingreiðslur eða neitt,“ segir Guðmundur, sem telur óhjákvæmilegt að fjöldi lendi í fátækt við að fara á eftirlaun.

„Þeir sem eru með 400 þúsund krónur og eru að fara á eftirlaun í dag, þeir geta reiknað með um að fá rétt rúmar 200 þúsund krónur frá lífeyrissjóði. Svo er þetta skattað og skert. Það sér það hver heilbrigður maður að ef þú ert ekki kominn upp fyrir fátæktarmörk, sem ætti að vera 3-400 þúsund í dag, að þá ertu bara í fátækt. Það er bara stór hópur eldri borgara, og sérstaklega konur sem hafa ekki verið eins mikið úti á vinnumarkaði.“

Hann segir ljóst að slíkar upphæðir dugi ekki til að komast í gegnum mánuðinn. Því þurfi að hætta að skatta og skerða greiðslurnar.

„Þegar fjármálaráðherra segir þiggjandi bótaþegar, þá erum við komin eitthvert langt niður úr öllu. Við vitum það að það lifir enginn á 220 þúsund krónum útborguðum í dag.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.