Viðskipti innlent

Ætla að skattleggja erlenda miðla og veitur

Jakob Bjarnar skrifar
Lilja og Bjarni hafa fundað og eru sammála um að það beri að skattleggja erlenda miðla og efnisveitur sem taka stöðugt meira til sín hér á landi.
Lilja og Bjarni hafa fundað og eru sammála um að það beri að skattleggja erlenda miðla og efnisveitur sem taka stöðugt meira til sín hér á landi. vísir/vilhelm

Stefnt er að því að leggja fram frumvarp á þessu þingi sem snýr að skattlagningu á erlendar efnisveitur sem ráða orðið lögum og lofum hér á landi sem víðar.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra funduðu í liðinni viku og ræddu meðal annars um mögulegar leiðir til skattlagningar á erlendar efnis- og streymisveitur.

„Vilji ráðherranna stendur eindregið til þess að jafna stöðu innlendra fjölmiðla og erlendra, og þau hafa falið sérfræðingum ráðuneytanna að móta tillögur um hvernig megi nýta skattkerfið í þeim tilgangi,“ segir í svari menntamálaráðuneytisins við fyrirspurn Vísis.

Skattlagning á erlenda miðla eða ígildi skattlagningar á rafræn viðskipti við umrædd fyrirtæki erlendis eru meðal þess sem eru til skoðunar. Útfærslur hugmynda í þá veru liggja ekki fyrir, en stefnan er að hraða þeirri vinnu svo leggja megi fram frumvarp um málið á þessu þingi.

Eins og fréttastofan greindi frá í gær hafa stóru veiturnar brugðist misjafnlega vel við áformum ríkisstjórna í Ástralíu. Meðan Facebook tók sig til og lokaði einfaldlega fyrir deilingar efnis allra fréttamiðla, og reyndar nokkrum öðrum stofnunum í leiðinni þá hefur Google gengið til samninga við fjölmiðlafyrirtæki.

Lilja var í viðtali í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í vikunni og þá lýst hún yfir því að nauðsynlegt væri að jafna leikinn milli annars vegar frjálsra fjölmiða og ríkisútvarpsins sem og gangvart hinum stóru erlendu efnisveitum sem eru að taka til sín 5-7 milljarða árlega af auglýsingatekjum. 

„Það þarf að skattleggja erlendu miðlana eins og við viljum skattleggja innlendu miðlana.“


Tengdar fréttir

Facebook lokar á fréttir í Ástralíu

Samfélagsmiðlarisinn Facebook hefur lokað á þann möguleika að notendur í Ástralíu geti deilt eða skoðað fréttir í gegnum miðilinn.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×