Körfubolti

Jón Axel var aðeins einu stigi frá því að ná pabba sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson var frábær í gær og lét ekki misheppnuð skot í byrjun leiksins trufla sig. Hann snögghitnaði síðan og skoraði 29 stig.
Jón Axel Guðmundsson var frábær í gær og lét ekki misheppnuð skot í byrjun leiksins trufla sig. Hann snögghitnaði síðan og skoraði 29 stig. fiba.basketball

Jón Axel Guðmundsson hefur aldrei skorað fleiri stig í landsleik en hann gerði í flottum sigri á Slóvakíu í gær í forkeppni að undankeppni HM 2023.

Jón Axel skoraði 29 stig í leiknum auk þess að taka 6 fráköst og gefa 5 stoðsendingar. Jón klikkaði á fyrstu fimm skotum sínum í leiknum en hitti síðan úr 9 af síðustu 13 skotum sínum sem er geggjuð hittni.

Jón Axel nýtt sex af tíu þriggja stiga skotum sínum í Prishtina í gær.

Jón Axel bætti sitt persónulega stigamet með landsliðinu um fimm stig og var á endanum aðeins einu stigi frá því að jafna við föður sinn.

Jón Axel hafði mest áður skorað 24 stig í einum landsleik en það var á móti Andorra á Smáþjóðaleikunum í San Marínó árið 2017. Þriðji tuttugu stiga leikur Jóns Axels er síðan á móti Portúgal í undankeppni EM 2019.

Guðmundur Bragason, faðir Jóns Axels, á landsleikjametið en hann skoraði mest 30 stig í einum landsleik á sínum landsleikjaferli.

Guðmundur setti sitt persónulega met á móti Englendingum í Keflavík 27. desember 1994 en Guðmundur skoraði þá 30 stig í 105-101 sigri í vináttuleik þjóðanna.

Guðmundur skoraði mest 27 stig í leik í keppni en það var á móti Noregi í undanriðli EM 4. maí 1991. Jón Axel er því kominn fram úr föður sínum á þeim lista.

Flest stig feðganna í einum A-landsleik:

  • 30 stig - Guðmundur Bragason á móti Englandi 1994
  • 29 stig - Jón Axel Guðmundsson á móti Slóvakíu 2021
  • 27 stig - Guðmundur Bragason á móti Noregi 1991
  • 27 stig - Guðmundur Bragason á móti Noregi 1998
  • 26 stig - Guðmundur Bragason á móti Austurríki 1993
  • 26 stig - Guðmundur Bragason á móti San Marínó 1995
  • 26 stig - Guðmundur Bragason á móti Eistlandi 1995
  • 26 stig - Guðmundur Bragason á móti Svíþjóð 1996
  • 25 stig - Guðmundur Bragason á móti San Marínó 1993
  • 25 stig - Guðmundur Bragason á móti Lettlandi 1996
  • 24 stig - Jón Axel Guðmundsson á móti Andorra 2017
  • 24 stig - Guðmundur Bragason á móti Kýpur 19988
  • 24 stig - Guðmundur Bragason á móti Englandi 1994



Fleiri fréttir

Sjá meira


×