Körfubolti

Fullt hús hjá Kefla­vík og góðir sigrar Hauka og Skalla­gríms

Anton Ingi Leifsson skrifar
Keflavík og Haukar unnu bæði í kvöld.
Keflavík og Haukar unnu bæði í kvöld. vísir/hulda margrét

Domino’s deild kvenna rúllaði aftur af stað í kvöld eftir landsleikjahlé. Haukar höfðu betur gegn Breiðabliki í Kópavogi, Skallagrímur rúllaði yfir KR og Keflavík er á toppnum eftir sigur í Stykkishólmi.

Haukar eru í fjórða sæti deildarinnar með tíu stig eftir 70-60 sigur á Breiðabliki í kvöld. Frábær annar leikhluti lagði grunninn að sigri Haukastúlkna en þær unnu annan leikhlutann 21-10. Breiðablik er með fjögur stig í sjöunda sæti.

Þóra Kristín Jónsdóttir skoraði sautján stig fyrir Hauka og tók sjö fráköst. Eva Margrét Kristjánsdóttir bætti við fjórtán stigum og fimm fráköstum. Birgit Ósk Snorradóttir skoraði fimmtán stig, tók fimm fráköst og gaf fjórar stoðsendingar í liði Blika. Sóllilja Bjarnadóttir kom næst með ellefu stig og fimm fráköst.

Skallagrímur lenti ekki í neinum vandræðum með botnlið KR á heimavelli en lokatölur 67-53. KR-liðið er en án stiga en Borgnesingar voru með góð tök á leiknum. Þær voru 33-22 yfir í hálfleik og unnu svo þriðja leikhlutann 26-17. Tuttugu stiga munur fyrir fjórða leikhlutann var of stór biti fyrir KR.

Sanja Orozovic gerði átján stig fyrir Skallagrím og tók tíu fráköst. Nikita Telesford bætti við sextán stigum og Embla Kristínardóttir tólf. Taryn Ashley Mc Cutcheon skoraði sautján stig og tók fjögur fráköst fyrir gestina sem og gaf níu stoðsendingar. Annika Holopainen gerði fimmtán stig. Skallagrímur er með átta stig í fimmta sæti deilarinnar en KR er á botninum, án stiga eftir átta leiki.

Keflavík er á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir sjö umferðir en þær keflvísku sóttu tvö stig í Stykkishólm í kvöld. Mikið var skorað í fyrsta leikhlutanum, 28-31, en Keflavík leiddi með þrettán stigum í hálfleik, 54-41. Lokatölur 91-79.

Daniela Wallen Morillo var mögnuð hjá Keflavík. Hún skoraði 37 stig og tók sautján fráköst. Katla Rún Garðarsdóttir bætti við sextán stigum og Anna Ingunn Svansdóttir fjórtán. Emese Vida gerði 22 stig og tók átján fráköst fyrir Snæfell en Haiden Denise Palmer kom næst með sextán. Keflavík er með fjórtán stig á toppi deildarinnar — með fullt hús stiga en Snæfell er í sjötta sætinu með fjögur stig.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.