Viðskipti innlent

Bláa Lónið nú opið um helgar eftir fjögurra mánaða lokun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bláa lónið hefur verið tómt í fjóra mánuði en nú ætti fólk að fara að sjást aftur í bláu lóninu um helgar næstu vikurnar.
Bláa lónið hefur verið tómt í fjóra mánuði en nú ætti fólk að fara að sjást aftur í bláu lóninu um helgar næstu vikurnar. vísir/vilhelm

Bláa Lónið verður opnað á ný á morgun eftir að hafa verið lokað frá 8. október. Bláa Lónið, veitingastaðurinn Lava, Silica hótel og verslun Bláa Lónsins í Svartsengi, verða opin allar helgar fram á vor. Retreat Spa verður opið á laugardögum.

Retreat hótel og veitingastaðurinn Moss verða sömuleiðis opnuð en með takmarkaðri opnunartíma.

Veitingastaðurinn Lava mun bjóða upp á bröns alla laugardaga og sunnudaga í vor frá klukkan 11 til 15. Þar geta gestir snætt á sloppnum á milli þess sem þeir njóta dvalarinnar í Bláa Lóninu.

Í tilkynningu frá Bláa lóninu kemur fram að núgildandi tilmælum yfirvalda varðandi sóttvarnaráðstafanir sé fylgt í hvívetna á öllum starfstöðvum Bláa Lónsins. Vegna takmarkanna séu gestir hvattir til að bóka heimsókn sína fyrirfram á vefnum.

Bláa lónið fór ekki varhluta af kórónuveirufaraldrinum og hruni í ferðamennsku á síðasta ári. Fyrirtækið sagði upp fjölda fólks, lokaði tímabundið en nýtti sér uppsagnastyrki ríkisins á tímabilinu maí til október í fyrra.

Bláa lónið fékk 590 milljónir í uppsagnastyrk en í umfjöllun Kveiks á dögunum kom fram að hluthafar fyrirtækisins hefðu fengið samtals 7,8 milljarða króna í arð frá félaginu árin þrjú á undan.

Samkvæmt lögum þurfa fyrirtæki sem fá uppsagnastyrk að uppfylla tiltekin skilyrði áður en þau geta á ný byrjað að greiða sér arð. Fortíðararður skiptir þó ekki máli.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, benti á í Kveiki að Bláa lónið hefði verið einn stærsti skattgreiðandi á Íslandi svo árum skipti og skattspor þess árin 2017-2019 verið rúmir 13 milljarðar króna. Arðgreiðslur séu merki um hraustleika fyrirtækja.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.