Þetta kemur fram í ársfjórðungsuppgjöri bankans en sé litið til ársins í heild dróst hagnaður bankans saman um tæpa tvo milljarða milli ára og var 6,8 milljarðar króna á síðasta ári samanborið við 8,5 milljarða árið 2019. Samhliða því jókst arðsemi umfram áhættulausa vexti úr 1,2% árið 2019 í 2,6% á síðasta ári.
Stjórnunarkostnaður bankans dróst saman um 7,1% á milli ára og nam 22,7 milljörðum króna á síðasta ári. Að sögn bankans má rekja lækkunina til fækkunar stöðugilda og lækkun á flestum kostnaðarliðum.
Aukin áhætta í lánasafninu
Hlutfall lánasafns bankans sem er metið með verulega aukningu í útlánaáhættu (stig 2), margfaldaðist milli ára og er nú 15,6% samanborið við 2,6% í lok árs 2019. Er sú breyting rakin til áhrifa faraldursins og þeirra ýmsu úrræða sem viðskiptavinum stóðu til boða vegna tímabundins tekjumissis.
Fram kemur í tilkynningu frá bankanum að útlán til viðskiptavina hafi aukist um 107 milljarða króna eða 11,9% á árinu 2020. Vöxturinn var aðallega í húsnæðislánum þar sem mikil eftirspurn var eftir endurfjármögnun.
Innlán frá viðskiptavinum hækkuðu um 61,1 milljarða króna á síðasta ári eða 9,9% og námu 679 milljarðar króna í lok árs. Skýrist það af auknum innlánum einstaklinga og fyrirtækja.
1.500 heimili og 650 fyrirtæki nýtt sér sérstök úrræði
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir stjórnendur vera mjög sátta með arðsemi bankans á fjórða ársfjórðungi síðasta árs.
„Á árinu 2020 lækkaði kostnaður um 7,1% á sama tíma og aukning í útlánasafninu nam 11,9% og innlán jukust um 9,9%. Töluvert hefur verið fjallað um stöðu lánasafnsins og áhrif af COVID-19 en um 1.500 heimili og 650 fyrirtæki nýttu sér þau úrræði sem í boði voru og lauk í árslok 2020,“ er haft eftir Birnu í tilkynningu.
Hún bætir við að þeir viðskiptavinir sem höfðu þörf fyrir lengra greiðsluhlé séu að mestu fyrirtæki í ferðaþjónustu og að slík lán séu um 6% af lánasafni bankans í lok árs.
Íslandsbanki er nú alfarið í eigu íslenska ríkisins en Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur ákveðið að hefja sölumeðferð á 25 til 35% hlut ríkisins í bankanum.