Skoðun

Áttu rétt?

Indriði Stefánsson skrifar

Þegar upp koma ágreiningsmál milli aðila getur komið til þess að útkljá þurfi þau fyrir dómi. Því miður er það svo að kostnaður við að sækja mál fyrir dómstólum getur orðið nokkuð hár. Jafnframt getur verið dýrt að verja rétt sinn fyrir dómi. Margir eru hreinlega ekki með fjárhagslega burði til að reka mál fyrir rétti. Afleiðingin er sú að það búa einfaldlega ekki allir við sömu réttarvernd.

Smákröfudómstóll

Víða erlendis er til sérstakt dómsstig þar sem teknar eru fyrir minni fjárkröfur og dómari úrskurðar um niðurstöðu málsins. Tilgangurinn er að aðilar málsins geti rekið málið sjálfir án aðkomu lögmanna. Þannig er hægt að halda kostnaði málsaðila í algjöru lágmarki. Með því væri hægt að leysa deilur sem varða minni fjárkröfur sem réttlæta ekki þann kostnað sem hlýst af því að fara með mál fyrir aðra dómstóla.

Hópmálsóknir

Önnur leið til að taka á þessum vanda er að auka möguleika fólks á því að fara í hópmálsókn. Séu aðilar máls margir gætu þeir þannig tekið sig saman og deilt kostnaðinum af málsókninni. Þrátt fyrir að hér á landi séu fyrir hendi möguleikar á hópmálsókn er það fremur fátítt. Nýleg dæmi eru meðal annars hópur fólks sem varð fyrir háttsemi Procar svo og viðskiptavinir smálánafyrirtækja.Það væri áhugavert að greina hvers vegna fólk nýtir sér ekki hópmálsóknir í meira mæli. hugsanlega mætti útvíkka möguleika hagsmunasamtaka til þátttöku í hópmálsóknum.

Kærunefndir

Annar möguleiki á úrlausn eru kærunefndir innan stjórnsýslunnar. Nú þegar eru skipaðar ýmsar kærunefndir sem hægt er að leita til um úrskurði í ákveðnum málaflokkum. Tryggja þarf að úrskurðir kærunefnda séu bindandi og farið sé eftir niðurstöðunni. Einnig mætti hugsa sér að koma á fót fleiri kærunefndum, sérstaklega í málaflokkum sem brýnt er að mál fái umfjöllun og niðurstöðu, svo sem meiðyrði og ágreiningur um fasteignakaup.

Friðsamleg úrlausn ágreiningsefna

Einn grundvöllur okkar samfélags er friðsamleg úrlausn ágreiningsefna. Þegar fáir hafa möguleika á að leita slíkra lausna grefur það undan trausti fólks á samfélaginu. Við hljótum líka að gera kröfu til þess að á milli borgara landsins ríki jafnrétti, að það sé jafnvægi í möguleikum fólks til að sækja og verja rétt sinn. Í það minnsta ætti það að vera á færi flestra, en ekki bara lítils hluta landsmanna. Við hljótum að geta gert betur.

Höfundur er frambjóðandi í prófkjöri Pírata fyrir alþingiskosningar 2021.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×