„Það vantaði smá gæði, skora úr færunum og meiri takt í sókninni,“ sagði Snorri.
Þrátt fyrir sex marka tap hrósaði þjálfarinn sínum mönnum fyrir hugarfarið, þótt það hefði ekki fleytt þeim langt í kvöld.
„Ég er auðvitað hundfúll að tapa leik og það er eitthvað sem við sættum okkur ekki við. Við viljum ekki tapa með sex mörkum á heimavelli en ég ætla samt að hrósa þeim aðeins. Ég sá glitta í anda og neista hjá mínum mönnum og þeir börðumst allan leikinn og vildu þetta. En Selfoss var bara betri en við í dag. Hann [Vilius Rasima] varði töluvert í markinu,“ sagði Snorri.
„Auðvitað áttum við augnablik þar sem við gátum látið leikinn snúast okkur í vil en við vorum ekki nógu góðir. Við vorum að elta allan leikinn og Selfoss vann verðskuldað.“
Umræddur Rasimas fór mikinn í marki Selfoss og varð 21 skot (48 prósent), mörg hver úr dauðafærum. Snorri segir að frammistaða hans hafi þó ekki verið eini munurinn á Selfoss og Val í kvöld.
„Það er of mikil einföldun. Það eru margir í þessu Selfossliði sem eru góðir. Þeir spiluðu sterka vörn og voru þéttir. Við vorum í vandræðum með að leysa það og gerðum of mörg mistök. En klárlega dró hann verulega úr okkur tennurnar. Hann var með margar dúndurvörslur, sérstaklega á þessum kafla þar sem við vorum við það að snúa þessu okkur í hag,“ sagði Snorri.
Valur hefur nú tapað tveimur leikjum í röð. „Ef ég tapa einum leik hef ég áhyggjur, þannig að ef ég tapa tveimur hef ég líka áhyggjur,“ sagði Snorri að lokum.