Handbolti

Sextán ára stelpa með nokkrar alvöru bombur í sigri Hauka i Eyjum í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukastelpurnar fagna hér sigrinum á ÍBV í búningsklefanum eftir leikinn.
Haukastelpurnar fagna hér sigrinum á ÍBV í búningsklefanum eftir leikinn. Instagram/@haukar_handbolti

Fjórar sextán ára stelpur komust á blað í óvæntum og glæsilegum sigri Hauka í Olís deildinni í Vestmannaeyjum í gærkvöldi.

Gunnar Gunnarsson, þjálfari Hauka, var óhræddur við að henda þessum ungu stelpum út í djúpu laugina á einum erfiðasta útivelli landsins.

Alls skoruðu þessar fjórar stelpur úr 2004 árgangi Haukanna tíu mörk í þessum 30-27 sigri Haukaliðsins. Einn þriðji af mörkum Haukaliðsins voru því skoruð af stelpum sem þurfa ennþá far á æfingu.

Fremst í flokki var Rakel Oddný Guðmundsdóttir sem skoraði fimm mörk og var markahæst í liðinu ásamt hinni sænsku Söru Odden. Rakel Oddný skoraði flest marka sinna með þrumuskotum fyrir utan.

Jafnaldra hennar Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði þrjú mörk og fiskaði að auki tvö víti og tvo brottrekstra á Eyjakonur á mikilvægum tímapunktum í seinni hálfleiknum.

Tvær aðrar sextán ára stelpur komust líka á blað í leiknum eða línumaðurinn Thelma Melsted Björgvinsdóttir og hornamaðurinn Emilía Katrín Matthíasdóttir.

Thelma Melsted skoraði markið sitt eftir stórglæsilega línusendingu frá umræddri Rakel Oddnýju Guðmundsdóttur.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá þessari óvæntu frammistöðu 2004-stelpnanna í Haukaliðinu í Eyjum í gær.

Klippa: 2004 stelpur Hauka öflugar út í Eyjum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×