Handbolti

Krúnurökuðu sig til að sýna liðsfélaga með krabbamein stuðning

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dimitrij Küttel, leikmaður Kadetten Schaffhausen, glímir við krabbamein.
Dimitrij Küttel, leikmaður Kadetten Schaffhausen, glímir við krabbamein. epa/CARSTEN BUNDGAARD

Leikmenn svissneska meistaraliðsins Kadetten Schaffhausen sýndu liðsfélaga sínum sem glímir við krabbamein táknrænan stuðning í leik gegn Rhein-Neckar Löwen í gær.

Dimitrij Küttel, leikmaður Kadetten Schaffhausen og svissneska landsliðsins, glímir nú við krabbamein. Hann er 26 ára.

Í leiknum gegn Rhein-Neckar Löwen í Evrópudeildinni í gær sást að nokkrir leikmenn Kadetten Schaffhausen höfðu krúnurakað sig til að sýna Küttel stuðning.

Svissneska landsliðið sýndi honum líka stuðning á HM í Egyptalandi í síðasta mánuði og ljóst er að félagar hans standa þétt við bakið á honum.

Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari Kadetten Schaffhausen sem er stærsta liðið í Sviss og fastagestur í Evrópukeppnum.

Leik Kadetten Schaffhausen og Löwen í gær lyktaði með jafntefli, 30-30. Ýmir Örn Gíslason skoraði tvö mörk fyrir Ljónin og fékk auk þess rautt spjald undir lok leiks.

Löwen er á toppi D-riðils Evrópudeildarinnar með sjö stig. Kadetten Schaffhausen er í 3. sæti riðilsins með fjögur stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.