Skoðun

Of­beldi á Al­þingi

Gísli Rafn Ólafsson skrifar

„Á Alþingi er ofbeldi. Það er ofbeldisfullur vinnustaður“. Þetta eru orð sem núverandi þingmaður lét falla í kynningu fyrir mögulega frambjóðendur til komandi alþingiskosninga. Þegar slík orð falla koma óneitanlega upp í hugann fréttir af slagsmálum í þingsölum erlendis og hin skelfilega árás inn í þinghús Bandaríkjanna fyrir nokkrum vikum. En ofbeldi er ekki bara líkamlegt heldur á það sér ýmsar birtingarmyndir sem oft geta verið alvarlegri en hnefahögg eða barsmíðar.

Ég ólst upp á pólitísku heimili. Afar mínir tveir voru þingmenn, hvor af sínum enda hins pólitíska litrófs. Annar var stofnandi Kommúnistaflokks Íslands og hinn gallharður Sjálfstæðismaður. Fyrir utan hið upphaflega sjokk þegar móðir mín kynnti nýja kærastann fyrir foreldrum sínum, atvik sem minnti að vissu leyti á hina margfrægu kvikmynd Stanley Kramers, „Guess Who is Coming for Dinner“ frá 1967, þá upplifði ég aldrei neina andúð milli hægri og vinstri arms fjölskyldunnar. Þvert á móti ræddu afar mínir alltaf kurteisislega og málefnalega um stjórnmál líðandi stundar og báru mikla virðingu hvor fyrir öðrum.

Þessi lífsreynsla mín endurspeglar að miklu leyti þá stjórnmálamenningu sem tíðkaðist á síðustu öld. Með fáum undantekningum, gátu andstæðingar í stjórnmálum náð saman og fundið hinn gullna meðalveg sem mikilvægt var að þræða til þess að bæta hag fólksins í landinu.

Eitt besta dæmið um þetta var hin svokallaða Nýsköpunarstjórn sem Einar afi minn tók einmitt þátt í að stofna með Ólafi Thors árið 1944. Í frægri ræðu sem hann hélt 11. september 1944 sagði hann „En ef við hins vegar förum nú að berjast af öllum mætti innbyrðis… þá verður lítið sem ekkert af þessu framkvæmt nú á næstunni, þá kaupum við matinn handa okkur erlendis frá fyrir innistæðurnar, á meðan við rífumst hér heima… og glæsilegasta tækifæri sem Ísland hefur haft til að verða atvinnulega sjálfstætt og velmegandi þjóðfélag væri glatað.“

Því miður hafa stjórnmál undanfarinna áratuga þvert á móti einkennst af sívaxandi hatursræðu og skautun. Stjórnmálamenn ala í auknum mæli á hatri og hræðslu við breytingar og þróun, og jafnvel öflugustu talsmenn kapítalismans eru fastir í viðjum fortíðarinnar og telja að orðið nýsköpun sé einungis nýyrði fyrir einkavinavæðingu.

Síðustu ríkisstjórnir og meirihlutinn á bak við þær á Alþingi leita æ sjaldnar eftir breiðri samstöðu um mikilvæg mál. Þetta sést einna best í því hversu seint stjórnarfrumvörp eru gjarnan lögð fram á hverju þingi. Það er oft ekki fyrr en á síðustu vikum þingsins að stór og mikilvæg frumvörp eru kunngjörð og þingmönnum minnihlutans er þannig gefinn stuttur tími til þess að setja sig inn í málin. Einstaka þingforsetar hafa jafnvel stundað það að gefa út dagskrá þingsins með sem stystum fyrirvara svo að þingmenn í minnihluta eigi erfiðara með að skipuleggja og undirbúa sig.

Það er í nefndum þingsins sem leitast á við að skapa breiðari samstöðu um þingmál, en því miður eru þær ekki alltaf skipaðar fólki sem er tilbúið að hlusta á rök annara og leita sátta. Sumir þingmenn, þvert á móti virðast fá hvað mest út úr því að geta sýnt fram á styrk sinn og vald með því að neita að hlusta og ræða mál af sanngirni. Enn aðrir nota þennan styrk og völd til þess að kalla andstæðinga ljótum nöfnum og skemma fyrir nefndarstörfum.

Allt er þetta andlegt pólitískt ofbeldi sem ekki á heima á elsta þjóðþingi heims. Ef við látum það óáreitt og breytum ekki til hins betra mun ástandið einungis verða verra og leiða til enn skelfilegri atburða en þeirra sem við höfum upplifað á síðustu vikum í formi skotárása á skrifstofur flokka og heimili stjórnmálamanna. Það er hlutverk kjörinna fulltrúa og okkar sem sækjumst eftir að taka þátt í lýðræðinu með þátttöku í stjórnmálum að segja „hingað og ekki lengra!“

Við þurfum nýtt hugarfar í íslensk stjórnmál. Við þurfum stjórnmálamenn sem trúa á samvinnu og vel upplýstar ákvarðanir. Við þurfum aukið samstarf milli flokka, óháð því hverjir eru í ríkisstjórn. Við þurfum aukna virðingu fyrir hvort öðru og ólíkum skoðunum. Við þurfum að geta rætt málin af sanngirni og sannfæringu án þess að láta hatrið sigra. Við þurfum ofbeldislaust Alþingi!

Höfundur er frambjóðandi í prófkjöri Pírata til Alþingiskosninga 2021.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×