Handbolti

Mikkel Han­sen frá­bær og heims­meistararnir í úr­slit

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mikkel var magnaður í kvöld.
Mikkel var magnaður í kvöld. Slavko Midzor/Getty

Danir eru komnir í úrslitaleikinn, annað heimsmeistaramótið í röð, er þeir unnu 35-33 sigur á Spánverjum í kvöld. Danir eru ríkjandi heimsmeistarar eftir að hafa staðið uppi sem sigurvegarar á heimavelli árið 2019.

Danir gáfu tóninn með að skora tvö fyrstu mörkin. Þeir dönsku spiluðu algjörlegan frábæran sóknarleik. Þeir voru tveimur mörkum yfir eftir tíu mínútna leik en voru komnir fimm mörkum yfir 13-8 skömmu síðar.

Þeir spænsku breyttu stöðunni úr 12-16 í 14-16 og náðu að laga stöðuna fyrir hlé. Varnarleikurinn var ekki sérstakur hjá báðum liðum og markvarslan engin. Samtals vörðu markverðir beggja þjóða fimm skot í fyrri hálfleik en Danir leiddu 18-16 í hálfleik.

Danir gáfu tóninn í síðari hálfleik með tveimur fyrstu mörkunum og voru komnir þar af leiðandi fjórum mörkum yfir. Spánverjar voru þó ekki dauður úr öllum æðum og minnkuðu muninn á ný í tvö mörk er stundarfjórðungur var til leiksloka.

Evrópumeistararnir í Spáni minnkuðu muninn mest í eitt mark og fengu tækifæri í lokasókninni að jafna en skot Ruben Marchan fór í slá. Lokatölur 35-33 sigur Dana í frábærum leik.

Mikkel Hansen, sem átti afleitan dag er Danir höfðu betur í maraþonleik gegn Egyptalandi í átta liða úrslitunum, fór á kostum í kvöld. Hann var lang markahæstur og gerði tólf mörk. Magnus Saugstrup skoraði sjö mörk.

Danijel Dujsebahev var markahsætur hjá Spáni með sjö mörk en Adrian Figueras skoraði sex mörk.

Danir mæta Svíþjóð í úrslitaleiknum á sunnudaginn á meðan Spánn mætir Frökkum í leiknum um þriðja sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×