Viðskipti innlent

Tíma­kaup á Ís­landi áttunda hæsta í Evrópu

Atli Ísleifsson skrifar
Tímakaup var hæst í Danmörku, hvort sem litið sé til tímakaups í evrum eða jafnvirðisgildum, en lægst í Albaníu.
Tímakaup var hæst í Danmörku, hvort sem litið sé til tímakaups í evrum eða jafnvirðisgildum, en lægst í Albaníu. Vísir/Vilhelm

Ísland skipar áttunda sætið á lista yfir miðgildi tímakaups í ríkjum Evrópu í október 2018 að teknu tilliti til verðlags. Tímakaup var hæst í Danmörku, hvort sem litið sé til tímakaups í evrum eða jafnvirðisgildum, en lægst í Albaníu.

Frá þessu segir í frétt á vef Hagstofunnar. Þar segir að Ísland hafi verið með þriðja hæsta miðgildi tímakaups ef tímakaupið er umreiknað í evrur, en áttunda hæsta að teknu tilliti til verðlags með jafnvirðisgildum.

„Jafnvirðisgildi (PPS) er tilbúin gjaldmiðill þar sem hugmyndin er að ein eining geti keypt sama magn af vörum og þjónustu í hverju landi fyrir sig og tekur þannig mið af verðlagi hvers lands.

Tímakaup byggir á sambærilegu launahugtaki og regluleg heildarlaun í útgáfum Hagstofu Íslands, það er laun í dagvinnu, vaktavinnu og yfirvinnu og er deilitalan allar greiddar stundir.

Þessar niðurstöður byggja á samevrópskri rannsókn á launum og samsetningu þeirra, Structure of Earnings Survey (SES,) sem er gerð á fjögurra ára fresti. Rannsóknin var síðast gerð 2018 þar sem október var viðmiðunarmánuður og voru niðurstöður birtar á vef Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, ásamt umfjöllun þann 14. desember síðastliðinn.

Eurostat birti einnig hlutfall þeirra sem voru með tímakaup undir láglaunamörkum sem eru skilgreind sem tímakaup undir 2/3 af miðgildi tímakaups viðkomandi lands. Því eru láglaunamörk mismunandi á milli landa. Lægst var hlutfall þeirra sem voru með tímakaup undir láglaunamörkum í Svíþjóð, eða 3,6%, en hæst 23,5% í Lettlandi. Hlutfall þeirra sem voru með tímakaup undir láglaunamörkum var 11,2% á Íslandi, sem var áttunda lægsta hlutfallið í Evrópu, en Norðurlöndin voru öll með lægra hlutfall en Ísland,“ segir í tilkynningunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×