Handbolti

Bjarki Már: Menn spiluðu með minni þyngsli á öxlunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarki Már Elísson var valinn maður leiksins gegn Alsír.
Bjarki Már Elísson var valinn maður leiksins gegn Alsír. epa/Khaled Elfiqi

„Þetta var mikilvægt fyrir okkur, að stimpla okkur inn í mótið og fá tvö stig. Ég er ánægður með hvernig við mættum til leiks. Það er mjög gaman þegar þetta gengur svona vel,“ sagði Bjarki Már Elísson við Vísi eftir sigurinn stóra á Alsír, 24-39, á HM í Egyptalandi í kvöld.

Bjarki Már fór mikinn í leiknum og skoraði tólf mörk, þar af níu í fyrri hálfleik, úr aðeins þrettán skotum.

Hann segir að íslenska liðið hafi borið virðingu fyrir andstæðingnum og leikið af fullum krafti allan tímann.

„Ef menn hefðu mætt til leiks með hálfum hug hefði þetta leyst upp í einhverja vitleysu. Þeir spila þannig handbolta, maður getur átt von á öllu. Leiðir skildu snemma og þetta var gríðarlega öflug frammistaða hjá liðinu,“ sagði Bjarki Már.

En fannst honum vera annað hugarfar í íslenska liðinu en gegn Portúgal í fyrradag?

„Ég veit það ekki, það er alltaf pressa í fyrsta leik. Það eru margir ungir leikmenn hjá okkur sem eru ekki komnir með það marga landsleiki. Þetta var hægt í gang en nú var stressið farið og menn spiluðu með minni þyngsli á öxlunum,“ sagði Bjarki Már.

Hann hefur skorað átján mörk í fyrstu tveimur leikjum Íslands á HM úr aðeins tuttugu skotum og nýtt öll ellefu vítaskotin sín. Hann er að vonum sáttur með hvernig hann hefur byrjað mótið.

„Algjörlega, ég er mjög ánægður með það og ætla mér að halda áfram á þessari braut,“ sagði Bjarki Már að lokum.


Tengdar fréttir

Fátt skemmti­legra en að spila fyrir lands­liðið

Björgvin Páll Gústavsson kom inn í mark Íslands og átti fínan leik er Ísland gjörsigraði Alsír á HM í handbolta, lokatölur 39-23. Björgvin Páll varði sextán skot og gerði sér lítið fyrir og skoraði eitt mark.

Twitter: Bjarki Már stal senunni gegn Alsír

Fyrsti sigur Íslands á HM í handbolta kom í kvöld er liðið lagði Alsír örugglega. Íslenska liðið var tólf mörkum yfir í hálfleik, staðan þá 22-10. Fór það svo að Ísland vann leikinn með fimmtán marka mun, lokatölur 39-24 Íslandi í vil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×