Körfubolti

Harden fékk ósk sína uppfyllta og stjörnutríó verður til í Brooklyn

Sindri Sverrisson skrifar
James Harden hefur verið stigahæstur í NBA-deildinni þrjú síðustu tímabil.
James Harden hefur verið stigahæstur í NBA-deildinni þrjú síðustu tímabil. Getty/Carmen Mandato

Brooklyn Nets þykja orðnir meistarakandídatar í NBA-deildinni í körfubolta eftir að hafa tryggt sér þjónustu James Harden, verðmætasta leikmanns deildarinnar tímabilið 2017-18.

Brooklyn mun þar með geta teflt fram þremur af launahæstu leikmönnum deildarinnar, mönnum sem hæglega geta skorað 25 stig í leik. Harden hefur verið stigahæsti leikmaður deildarinnar þrjú síðustu ár í röð. Fyrir eru hjá Brooklyn Kevin Durant, gamall liðsfélagi Hardens, og Kyrie Irving. Allir eru þeir með samning sem gildir til 2023.

Harden verður þar með að ósk sinni eftir að hafa ekki farið leynt með það hve þreyttur hann væri á stöðu Houston Rockets, en þar hefur hann verið aðalmaðurinn um árabil. Núna ætti þessi 31 árs gamli leikmaður að geta barist um titla.

Harden fer frá Houston til Brooklyn með aðkomu tveggja félaga til viðbótar, Indiana Pacers og Cleveland Cavaliers, í flókinni félagaskiptafléttu sem aðeins á eftir að staðfesta. Frá þessu greina meðal annars ESPN og AP fréttaveitan. Brooklyn fórnar framtíðarvalréttum í nýliðavali, sem þýðir að staðan gæti versnað hratt þegar nýja stjörnutríóið lætur gott heita. Fléttan felur einnig í sér að Caris LeVert fari til Indiana frá Brooklyn, Victor Oladipo til Indiana frá Houston, og þeir Jarrett Allen og Taurean Prince til Cleveland frá Brooklyn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×