Handbolti

Segir HM í Egyptalandi afar ófyrirsjáanlegt

Sindri Sverrisson skrifar
Bjarte Myrhol er mættur í slaginn með norska landsliðinu.
Bjarte Myrhol er mættur í slaginn með norska landsliðinu. EPA/FOCKE STRANGMANN

Góðar líkur eru á því að Ísland og Noregur mætist í milliriðli á HM í handbolta í Egyptalandi. Norðmenn eru líklegir til að vinna til verðlauna eftir að hafa leikið til úrslita á síðustu tveimur heimsmeistaramótum. Bjarte Myrhol segir ekkert lið afgerandi líklegt til að vinna titilinn að þessu sinni.

Noregur tapaði tveimur síðustu úrslitaleikjum gegn gestgjöfum, fyrst Frökkum og svo Dönum, sem voru fyrir fram taldir afar sigurstranglegir. Núna segir reynsluboltinn Myrhol, sem líklega fær sitt síðasta tækifæri til að verða heimsmeistari, að baráttan um titilinn sé galopin.

„Ég fæ ekki séð hvaða lið gæti verið afgerandi sigurstranglegt eins og oft hefur verið í gegnum tíðina. Þetta verður spennandi,“ sagði hinn 38 ára gamli Myrhol við NTB í Noregi.

Aðspurður hvaða lið verði líklega í undanúrslitum er ljóst að Myrhol þykir, eðlilega, líklegast að Noregur og Frakkland fari áfram í 8-liða úrslit úr milliriðlinum sem Ísland stefnir á að komast í.

Riðlakeppni -> Milliriðill -> Átta liða úrslit

Þrjú lið úr E-riðli og þrjú úr F-riðli munu mætast í milliriðlakeppni HM. Ísland er í F-riðli með Portúgal, Alsír og Marokkó, en Noregur er í E-riðli með Frakklandi, Austurríki og Bandaríkjunum. Tvö lið komast svo úr milliriðlinum í 8-liða úrslit.

„Ég hef fengið þessa spurningu síðustu daga [um hvaða lið komist í undanúrslit]. Hér gleymi ég örugglega einhverjum en þetta eru helst við, Danmörk, Frakkland, Spánn, Króatía, Þýskaland og kannski Slóvenía. Svo er hellingur af liðum sem eru þarna rétt á eftir,“ sagði Myrhol.

Norðmenn byrja mótið á stórleik við Frakka á fimmtudagskvöld, þegar Ísland mætir Portúgal. „Það bendir allt til þess að sá leikur [við Frakka] skipti algjörlega sköpum. Liðið sem vinnur muni taka með sér stig í milliriðilinn,“ sagði Myrhol.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×