Handbolti

Björgvin Páll gaf ekki kost á sér vegna fjölskylduástæðna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson er reyndasti leikmaður HM-hópsins og sá eini sem hefur spilað meira en tvö hundruð landsleiki.
Björgvin Páll Gústavsson er reyndasti leikmaður HM-hópsins og sá eini sem hefur spilað meira en tvö hundruð landsleiki. Vísir/Daníel

Björgvin Páll Gústavsson hefur stigið fram og útskýrt af hverju hann er ekki með íslenska landsliðinu út í Portúgal.

Björgvin Páll fór ekki með íslenska handboltalandsliðinu út til Portúgal í morgun þar sem liðið mætir heimamönnum í undankeppni EM í vikunni. Hann var þó ekki skilinn eftir heima.

Björgvin Páll gaf út stutta yfirlýsingu á fésbókinni í dag þar sem hann sagðist hafa fengið spurningar um það í morgun af hverju hann yrði ekki með íslenska landsliðinu í þessu verkefni.

„Ég hef í morgunsárið fengið nokkur skilaboð og símtöl um hvers vegna èg fór ekki með landsliðinu til Portúgal. Í fyrsta lagi þá gaf èg ekki kost á mèr í þá ferð af fjölskylduástæðum,“ skrifaði Björgvin Páll.

Björgvin Páll var að verða faðir í fjórða sinn á dögunum en hann eignaðist þá dóttur sem hefur verið nefnd Eva. Fyrir áttu hann og kona hans Karen Einarsdóttir tvær stelpur og einn strák.

Björgvin Páll hvetur líka hina markverðina áfram. Markverðir Íslands í leiknum verða þeir Viktor Gísli Hallgrímsson og Ágúst Elí Björgvinsson. Þeir spila báðir í Danmörku, Viktor með GOG og Ágúst með Kolding. Björgvin Páll hefur ekkert spilað með Haukum síðan í september, enda deildin legið niðri vegna samkomutakmarkana, en lék landsleik á móti Litháen í nóvemberbyrjun.

„Þetta er auðvitað frábært tækifæri fyrir hina tvo markmennina til þess að láta ljós sitt skína og hafa þeir báðir staðið sig frábærlega síðustu vikur og eru 100% klárir í bátana. Þó að ég hefði gefið kost á mér er ekkert víst að ég hefði verið fyrir framan þá tvo en ég hef auðvitað ekki verið að spila handbolta uppvá síðkastið. Hlakka til að fylgjast með leiknum í Portúgal í faðmi fjölskyldunnar og hitta svo liðið aftur þegar þeir koma heim með 2 stig í bakpokanum. Áfram Ísland!,“ skrifaði Björgvin Páll.

Èg hef í morgunsárið fengið nokkur skilaboð og símtöl um hvers vegna èg fór ekki með landsliðinu til Portúgal. Í fyrsta...

Posted by Björgvin Páll Gústavsson on Mánudagur, 4. janúar 2021

Björgvin Páll er reynasti leikmaður íslenska HM-hópsins með 232 landsleiki á bakinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×