Innlent

Grillveisla hjá Skammtímavistun einhverfra barna

Snorri Snorrason á úrslitakvöldinu
Snorri Snorrason á úrslitakvöldinu Mynd/Hörður

Margt var um manninn í grillveislu Skammtímavistunar fyrir einhverf börn í Hólabergi í kvöld. Snorri Idolstjarna söng fyrir hópinn og Latabæjarveggurinn svokallaði var vígður.

Þrátt fyrir að maímánuður í ár sé sá kaldasti í manna minnum var mikill fjöldi gesta í garðinum að Hólabergi. Í boði voru grillaðar pylsur og gos og nammi í eftirrétt. Vorgrillveislan er árlegur viðburður en hún var sérstök í ár því vígður var formlega "Latabæjarveggurinn" svokallaði. Haukur Gíslason, sölu- og markaðsstjóri hjá Latabæ, sagði að starfsmenn Skammtímavistunar fyrir einhverf börn hafi haft samband við sig vegna mikils áhuga á Latabæ hjá krökkunum í vistuninni. Ákveðið var að hanna og prenta mynd af hetjunum til að setja upp á vegg. Haukur segir að Latabæ hafi borist fjöldi bréfa frá bandarískum foreldrum einhverfra barna sem segja þættina örva börnin ótrúlega mikið.

Snorri Snorrason, Idolstjarna Íslands, tróð upp fyrir börnin og fjölskyldur þeirra við góðar undirtektir, og virtist hann vera í miklu uppáhaldi hjá börnunum. Á eftir gaf Snorri eiginhandaráritanir og sat fyrir á myndum með krökkunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×