Umfjöllun og viðtöl: Valur - ÍR 75-85 | Langþráður sigur ÍR-inga

Helgi Hrafn Ólafsson skrifar
Evan Singletary skoraði 29 stig fyrir ÍR.
Evan Singletary skoraði 29 stig fyrir ÍR. vísir/bára

Valur tók á móti ÍR-ingum í Origo-höllinni að Hlíðarenda í kvöld í leik sem skipti bæði liðin miklu máli. Valsmenn þurftu að vinna leikinn til að halda sér úr fallsæti í deildinni og Breiðhyltingar vildu halda sér í úrslitakeppnissæti.

ÍR byrjuðu leikinn ekki nógu vel en náðu að finna fjölina sína og unnu að lokum með tíu stigum, 85-75.

Leikurinn byrjaði heldur rólega þar sem hvorugt lið var að sýna mikil gæði í sókninni og heldur tamt stigaskor í fyrsta leikhluta.

Valsarar stigu á bensíngjöfina í næsta leikhluta og lokuðu vel á allt sem ÍR-ingar vildu gera í sókninni. Gestirnir úr Breiðholtinu virtust mjög úr takti við hvern annan á þessum tíma og voru yfirleitt að kvarta í dómurum eða í liðsfélögum sínum. Valur leiddi með góðum tólf stigum í hálfleik.

Liðin upplifðu algjöran viðsnúning í seinni hálfleik. Skyndilega voru ÍR-ingarnir beittir í vörninni og að hitta vel á meðan að Valsmenn létu allt fara í taugarnar á sér og gátu ekki hægt á fljótu spili andstæðinganna. Í einum leikhluta skoruðu Breiðhyltingar nærri því jafn mörg stig og í öllum fyrri hálfleiknum og héldu heimamönnum í þrettán stigum. Leikhlutinn fór 13-30 fyrir ÍR og staðan orðin 56-61 fyrir gestunum!

Valur náði að klóra í bakkann í byrjun lokaleikhlutans en þá stigu ÍR-ingar aftur upp, tóku gott áhlaup og gerðu eiginlega alveg úti um vonir Vals með að ná að bjarga leiknum. Valur barðist fram á lokasekúndurnar en þeir þurftu að lokum að sætta sig við sárt tap, 75-85.

Af hverju vann ÍR?

Breiðhyltingar tóku yfir í seinni hálfleik með því að keyra upp hraðann, sýndu meiri ákafa og lögðu sig meira fram en Valsarar. Þeir fóru að láta boltann ganga í sókninni aðeins betur og fengu fyrir vikið annað hvort opið skot eða eitthvað út úr örtröðinni sem myndaðist oft á vellinum vegna hraðans í spilinu.



Hverjir stóðu upp úr?

Evan Singletary var bestur fyrir ÍR í kvöld, ýgur í vörninni á köflum og mjög kræfur á sóknarvellinum. Hann lauk leik með 29 stig, 6 stoðsendingar, 8 stolna bolta og hæstu plús/mínus tölfræði í sínu liði (+16 stig meðan hann var inn á)

Hjá Val var PJ Alawoya með 17 stig, 11 fráköst og fjóra stolna bolta.

Tölfræði sem vakti athygli

Liðið sem tekur að jafnaði flesta þrista í leik í deildinni hættu því í fyrri hálfleik. Valur vann þann hálfleik með 12 stigum. Í þeim seinni voru þeir aftur farnir að taka nærri því jafn marga þrista og tvista og töpuðu þeim hálfleik með 22 stigum.

Hvað gekk illa?

Valur missti einbeitinguna og gátu illa unnið úr mótlætinu sem mætti þeim í seinni hálfleik kvöldsins. Í fyrri hálfleik voru þeir að sækja inn í teig og tóku aðeins 8 þriggja stiga skot. Í seinni hálfleik tóku þeir tvöfalt fleiri en gátu ekki hitt nema úr þremur þeirra. Þeir létu líka allt of undan í baráttunni við gestina um hvort liðið væri að leggja sig meira fram.

Hvað gerist næst?

Valur á tvo leiki fram undan í næstu viku. Fyrst mæta þeir Stjörnunni í Mathús Garðabæjar-höllinni í bikarkeppninni næsta mánudag og svo á fimmtudaginn eiga þeir fyrir höndum langferð norður í Skagafjörð til að spila við Tindastól.

ÍR-ingar eru dottnir úr bikarkeppninni og geta því beint sjónum sínum alfarið að næsta heimaleik sínum, sem verður gegn Þór Akureyri í Hertz-hellinum í Breiðholti.

Danero Thomas hrósaði varnarleik ÍR.vísir/bára

Danero: Vörnin vann þetta í kvöld

Danero Thomas, leikmaður ÍR, var þreyttur en sáttur eftir að lið hans úr Breiðholtinu vann Valsliðið 75-85.

Ástæðan fyrir því að Danero var þreytulegur var að hann þurfti að spila flestar mínútur í sínu liði, tæpar 38 mínútur. Hann og þrír aðrir byrjunarliðsmenn þurftu að spila í meira en 36 mínútur í erfiðum leik. Hvernig líður manni eftir svona álag?

„Mér líður ágætlega en þetta er auðvitað lýjandi fyrir mann á mínum aldri,“ sagði hann léttur í bragði þrátt fyrir að vera þreyttur.

„Maður verður að gera það sem þurfa þykir á hverjum tíma til að vinna leikinn. Ef þú þarft að spila 40 mínútur þá spilar maður 40 mínútur. Við gerðum það í kvöld, þjösnuðum þennan leik út og náðum í sigurinn.“

Valsarar leiddu með tólf stigum í hálfleik, 43-31, en misstu öll tök á leiknum í seinni hálfleik og skoruðu aðeins 32 stig seinustu tuttugu mínúturnar. Danero vissi alveg hvað vann leikinn í kvöld.

„Vörnin vann þetta í kvöld,“ sagði hann og bætti við að það væri það sem að liðið hefði saknað undanfarna þrjá leiki. „Við höfum ekki verið að dekka boltann nógu vel og hjálparvörnin hefur ekki verið nógu skörp.“

Það breyttist að sögn Danero í leiknum í kvöld. „Allir að hreyfa sig á varnarvellinum og hjálpast að,“ sagði hann.

Þó vörnin hafi verið ágæt var sóknarleikur ÍR-inga líka mjög góður í seinni hálfleik og skotin voru að detta ágætlega fyrir utan þriggja stiga teiginn. Danero þakkaði samspili liðsins fyrir það.

„Betri boltahreyfing, betra flæði í kvöld en í undanförnum leikjum. Við erum hreyfanlegt lið, allir svipaðir að stærð og getum spilað margar stöður,“ sagði hann og bætti við að það skilaði sér líka í að ÍR hefði getað skipt á nær öllum boltahindrunum á varnarvellinum.

„Við fengum opin skot í kvöld og náðum að setja þau, það vann leikinn ásamt vörninni,“ sagði Danero að lokum áður en hann þakkaði fyrir sig og hélt heim á leið til að safna kröftum fyrir næsta leik.

PJ Alawoya segist þurfa að miðla af reynslu sinni til yngri leikmanna Vals.vísir/vilhelm

Alawoya: Gátum ekki haldið í við þá

PJ Alawoya, bandarískur leikmaður Vals, var rólegur í skapinu eftir leikinn og taldi sig vita hvað hefði klikkað hjá hans mönnum.

„Í fyrri hálfleik spiluðum við vel, þó að það hafi komið nokkur móment þar sem að við vorum ekki jafn góðir, en í seinni hálfleik misstum við einbeitinguna,“ sagði hann um muninn á hálfleikjunum tveim. „Við náðum hins vegar að herða okkur og minnka muninn í nokkur stig en þá tóku þeir annað áhlaup og við gátum ekki haldið í við þá,“ sagði hann um byrjun fjórða leikhluta. Valsarar komust aftur inn í leikinn þá en við það tóku ÍR-ingar annað áhlaup og Valur gat ekki unnið niður muninn nægilega mikið.

Seinni hálfleikurinn einkenndist af miklu upp og niður spili beggja liða og virtist sóknarleikur beggja liða mjög tilviljanakenndur. ÍR-ingar unnu betur út úr því og gátu náð sér í stig á meðan að Valur átti í erfiðleikum með það

„Ekkert lið er endilega vant svona óreiðukenndu spili, en með öllum þessum reynsluboltum í okkar liði þá verðum við að geta rifið hvern annan upp og notað hausinn. Við verðum að geta hægt á leiknum, koma honum aftur á okkar hraða og reynt að standa af okkur áhlaup þeirra,“ sagði PJ um hvað hans menn hefðu mátt gera betur í hraða spilinu sem var í seinni hálfleik.

PJ er núna að spila með sínu þriðja liði á Íslandi, en hann hefur áður spilað með Tindastóli og KR. Hvernig er fyrir hann að spila í liði eins og Val?

„Hér í Val er ég kominn meira í hlutverk reynslubolta og er að reyna kenna yngri leikmönnunum eitthvað. Ég er að reyna gefa meira af mér og koma þekkingu minni áfram á yngri kynslóðina,“ sagði hann.

Hvað segir reynslubolti við ungu leikmennina þá eftir leik sem þennan? „Öll lið tapa, það skiptir núna máli að fara aftur að teikniborðinu, finna einbeitinguna aftur og undirbúa sig fyrir næsta leik.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira