Erlent

Fundu leifar hershöfðingja

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Cao Cao eins og listamaður ímyndar sér hann.
Cao Cao eins og listamaður ímyndar sér hann.

Kínverskir fornleifafræðingar telja sig hafa fundið gröf hins alræmda hershöfðingja Cao Cao sem uppi var á þriðju öld.

Gröfin fannst í borginni Anyang í Henan-héraðinu í Kína, að sögn kínverskra fjölmiðla, og er talið að þar hafi verið lagður til hinstu hvílu ekki ómerkari maður en hinn alræmdi hershöfðingi Cao Cao sem lést árið 220 í Luoyang, þáverandi höfuðborg Han-keisaradæmisins. Hershöfðinginn var þekktur um alla Austur-Asíu fyrir gerræðislega stjórnunarhætti sína og er að minnsta kosti eitt kínverskt máltæki kennt við hann en það er á þessa leið: „Nefndu nafn Cao Cao og þá birtist hann". Máltækið hefur sömu merkingu og íslenska orðalagið oft kemur illur þá um er rætt og segir sitt um ævi og störf herforingjans sem var þekktur fyrir herkænsku, miskunnarleysi og slægð.

Cao Cao var síðasti landstjóri hins illræmda Han-keisaradæmis en hvarf þaðan og stofnaði sitt eigið ríki í kjölfar þess umróts sem varð í kínverskum stjórnmálum við endalok tímabils hinna þriggja konungdæma Han-veldisins. Fornleifafræðingar segja að þær jarðnesku leifar sem fundust í gröfinni séu af um það bil sextugum manni sem lagður hafi verið til hinstu hvílu með öllum þeim viðbúnaði sem þá tíðkaðist í Kína. Þá hafi líkamsleifar tveggja eiginkvenna hins látna fundist í gröfinni og komi það heim og saman við frásagnir sagnaritara af ævilokum hershöfðingjans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×