Innlent

Stjórnin getur vel við unað

Gunnar Helgi Kristinsson telur niðurstöður könnunarinnar hljóta að vera stjórnarandstöðunni nokkurt áhyggjuefni.
Gunnar Helgi Kristinsson telur niðurstöður könnunarinnar hljóta að vera stjórnarandstöðunni nokkurt áhyggjuefni.

Ríkisstjórnin getur vel við unað að halda meirihluta kjósenda að baki sér, eins og fram kemur í skoðanakönnun Fréttablaðsins, segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær njóta stjórnarflokkarnir stuðnings rúmlega 53 prósenta kjósenda og myndu samanlagt halda óbreyttum meirihluta þingmanna yrðu niðurstöður kosninga í takt við könnun blaðsins.

Gunnar Helgi segir að aðstandendur ríkisstjórnarinnar hljóti að vera ánægðir með þessa niðurstöðu. Þau mál sem stjórnin hafi unnið í undanfarið, niðurskurður, skattahækkanir og Icesave, séu fráleitt fallin til vinsælda.

Á hinn bóginn hljóta niðurstöðurnar að vera stjórnarandstöðuflokkunum nokkurt áhyggjuefni, segir Gunnar Helgi. Þeir komist ekkert áleiðis þrátt fyrir óvinsæl mál ríkisstjórnarinnar, og hljóti í framhaldinu að reyna að átta sig á hvað þeir séu að gera vitlaust.

Vinstri græn bæta við sig umtalsverðu fylgi, og mælast með stuðning tæplega fjórðungs kjósenda í könnun Fréttablaðsins. Gunnar Helgi segir erfitt að ráða í það hvað dragi fólk að flokknum. Líklegt megi telja að úr því megi lesa sterka stöðu Steingríms J. Sigfússonar, formanns flokksins.

Ólíklegt má telja að klofningur í flokknum undanfarið trekki að stuðning, enda er sundurlyndi yfirleitt til þess að skaða flokka, segir Gunnar Helgi. - bj








Tengdar fréttir

Fylgi Vinstri grænna eykst um fjórðung

Stuðningur við Vinstri græn eykst verulega samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. Fylgi við Samfylkinguna minnkar, en stjórnarflokkarnir myndu halda meirihluta yrðu niðurstöður kosninga í samræmi við útkomuna í könnuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×