Handbolti

Bandbrjálaður rútubílstjóri keyrði íslensku stelpurnar | Skíthræddar alla leiðina

Óskar Ófeigur Jónsson í Vrsac skrifar
Íslensku stelpurnar að hita upp á æfingunni í gær.
Íslensku stelpurnar að hita upp á æfingunni í gær. Mynd/Stefán
Íslenska kvennalandsliðið kom með látum inn á hótelið sitt í Vrsac í gær eða réttara sagt þá strandaði rútan fyrir framan innganginn. Stelpurnar tóku þessu létt og voru komnar með myndavélarnar fljótt á loft enda fáar rútuferðir sem fá slíkan endi.

„Við vorum alveg skíthræddar alla leiðina enda alveg bandbrjálaður rútubílstjóri. Ég sá alveg í hvað stefndi þegar hann var að keyra upp brekkuna og ég hélt um tíma að við værum á leiðinni inn í anddyrið á hótelinu. Þetta var eitt af því furðulegra sem ég hef séð," sagði Rakel Dögg Bragadóttir og rútubílstjórinn var búinn að vera skrautlegur alla ferðina.

„Við vorum búnar að vera með þennan bílstjóra í dag og í gær. Keyrslan var ekki upp á það besta og við vorum eiginlega alveg skíthræddar. Það hlaut að koma að einhverju svona. Þetta var bara gaman og fyndið," sagði Stella Sigurðardóttir. Stelpurnar voru um tíma inni í bílnum eftir að hann strandaði.

„Ég varð svo vandræðaleg að ég faldi mig á milli farþegasæta. Þetta var ævintýri og það kom sem betur fer ekkert fyrir," sagði Anna Úrsúla en vorkenndi aumingja bílstjóranum sem hefði líklega fallið á meiraprófinu í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×