Innlent

Færð og veður í dag:

MYND/E. Ól
 

Enn liggur allt innanlandsflug niðri vegna ísingar og ókyrrðar í lofti, en athugað verður með flug um klukkan ellefu. Þá er Holtavörðuheiðin lokuð vegna ófærðar og eu vegfarendum bent á að fara Bröttubrekku og Laxárdalsheiði. Lokað er um Víkurskarð og Ólafsfjarðarmúla.

Hálkublettir eru á Reykjanesbraut.Hálka er á Hellisheiði og Þrengslum. Á Suðurlandi eru hálkublettir. Á Vesturlandi er hálka og hálkublettir. Á Vestfjörðum er mokstur hafin á Klettshálsi, Ísafjarðardjúpi og á Steingrímsfjarðarheiði. Á Norðvesturlandi er hálka og snjóþekja, ófært er um Þverárfjall. Á Norðausturlandi er hálka, snjóþekja, éljagangur og skafrenningur. Á Austfjörðum er óveður á Möðrudalsöræfum og hálka. Hálka er á Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði, Oddsskarði og Fagradal.

Búast má við stormi norðan - og austanlands í dag, norðvestan 15 til 23 metrum á sekúndu, en mun hægari suðvestan og vestanlands. Þá verður slydda og snjókoma, einkum á Norðurlandi.

Töluvert annríki var hjá björgunarsveitum í óveðrinu sem gekk yfir sunnan- og vestanvert landið í gær.

Bifreið fauk út af veginum við Húnaver í gærkvöld og slasaðist ökumaðurinn. Björgunarsveitir á Hellu og Hvolsvelli voru kallaður út um níuleytið í gærkvöld vegna flutningabíls, sem fokið hafði við Markarfljótsbrú. Ákveðið var að fresta aðgerðum til að bjarga honum þangað til í dag. Þá urðu tugir umferðaróhappa á höfuðborgarsvæðinu.

Í Vestmannaeyjum þurftu bæjarbúar aðstoð björgunarmanna vegna ófærðar. Þakplötur flugu og fergja þurfti lausa hluti.

Í Reykjanesbæ voru einnig kallaðar út björgunarsveitarmenn vegna fjúkandi þakplatna við Helguvík.

Eftir að veður gekk niður um tíuleytið í gærkvöld voru ekki miklar annir hjá lögregluembættunum. Þrátt fyrir að fólk léti vetrarveður ekki hamla því að það skellti sér út á lífið var nóttin róleg hjá lögreglu um land allt.

Veðurvefur Vísis




Fleiri fréttir

Sjá meira


×