Skoðun

Þrenns konar veiðistjórn

Tómas Gunnarsson skrifar
Dómur Landsdóms frá 23. apríl 2012 setur ný viðmið og mörk í þjóðlífinu. Þar virðist horfið frá geðþótta lagatúlkunum og lögð áhersla á lagabókstafinn. Dómurinn veldur því að lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða jaðrar við ósvífni. Hvaðan kemur alþingismönnum vald til að ganga berlega gegn jafnréttisákvæðum 65. gr. stjórnarskrárinnar og veita ákveðnum útgerðum enn um sinn áratuga forréttindi fram yfir aðra þegna til fiskveiða í lögsögunni?

Veiðistjórn andstæð stjórnarskrá

Alllengi hefur tíðkast hér að fiskistofnar, sem ætíð hafa verið þjóðareign, hafi verið nýttir, veðsettir, seldir og látnir ganga í arf eins og einkaréttarlegar eignir fámenns hóps. Frumvarp ríkisstjórnarinnar á þingskjali 1052/2011-2012, um stjórn fiskveiða, samrýmist ekki bókstafstúlkun Landsdóms. Jafnréttisákvæði leyfa það ekki. Staðhæfing útgerða um að þær hafi keypt þjóðareignina af almennum borgurum úti í bæ er ómarktæk. Enda er ekki vitað til að útgerðirnar hafi hreyft legg né lið þegar Jón Bjarnason, fyrrv. sjávarútvegsráðherra, felldi niður sérréttindi þeirra til að veiða skötusel.

Kröfur útgerðanna kosta lagalega kollsteypu hér verði formlega í sakir farið. Eigi núverandi útgerðir að fá opinber forréttindi til veiða í lögsögunni kostar það ekki aðeins breytingar á jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar heldur einnig að Ísland segi sig frá alþjóðasáttmálum eins og Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Staða Íslands yrði þá að nokkru lík og staða Norður-Kóreu í samfélagi þjóðanna.

Veiðistjórn samkv. áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna 24.10.2007 er eina löglega veiðistjórnin. Allir Íslendingar verða að eiga jafnan rétt til gera tilboð í veiðiréttindi sem boðið er upp á. Í því felast engir afarkostir fyrir núverandi útgerðir, hvorki gagnvart nýjum útgerðum né heldur gagnvart öðrum rekstri. Þær hafa eftir sem áður sérstöðu í skipa- og veiðarfæraeign, mannahaldi, sérþekkingu og samböndum. Það er ekki lítill aðstöðumunur.




Skoðun

Sjá meira


×