Innlent

Fjörutíu kílóa lax svamlar í sænskri á

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Úr myndbandsupptöku af laxinum stórai á vefsíðu sænska dagblaðsins Aftonposten.
Úr myndbandsupptöku af laxinum stórai á vefsíðu sænska dagblaðsins Aftonposten.
Risastór lax sást nýverið í fiskateljara frá Vaka í sænskri á, rétt hjá bænum Jockfall í Norðurbotni. Fiskurinn mældist 151 sentimetri að lengd og 40 kíló að þyngd.

„Við höfum aldrei séð svona stóran fisk fara í gegnum teljara frá okkur,“ segir Magnús Þór Ásgeirsson, markaðsstjóri hjá Vaka, íslensku fyrirtæki sem í aldarfjórðung hefur framleitt fiskateljara undir vörumerkinu Riverwatcher.

„Hann er svo stór að hann kemst varla í gegnum opið,“ segir Magnús. „En í þessari á eru ótrúlega stórir fiskar. Meðaltalið er alveg svakalegt.“

Sænska dagblaðið Aftonposten skýrði frá risalaxinum á vefsíðu sinni, og má sjá myndbandsupptöku af laxinum hér að neðan.

Hjá Vaka starfa rúmlega 20 manns en fiskateljarar frá fyrirtækinu hafa verið settir upp í hundruðum áa víða um heim.

Magnús segir að fiskateljararnir séu oft settir upp við laxastiga eða þar sem farið er í aðrar framkvæmdir. „Oft eru þetta verktakar eða orkufyrirtæki sem fá leyfi til framkvæmda gegn því að fylgst sé með fiskunum. Við setjum þá upp hlið sem fiskarnir fara í gegnum. Í hliðinu er innrautt ljós sem bæði mælir fiskinn og kveikir á myndavél. Þannig fáum við bæði upplýsingar um alla fiska sem fara í gegn og mynd af þeim líka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×