Erlent

Líbanir biðjast afsökunar

Skopmyndum af spámanninum Múhameð mótmælt í Líbanon.
Skopmyndum af spámanninum Múhameð mótmælt í Líbanon. MYND/AP

Líbanski innanríkisráðherrann hefur sagt af sér vegna árásar mótmælenda á ræðismannsskrifstofu Dana í Beirút, höfuðborg Líbanon. Líbönsk stjórnvöld hafa beðið Dani afsökunar á árásinni en reiðir mótmælendur kveiktu í vegna skopmynda af Múhameð spámanni sem birtust í Jótlandspóstinum fyrir nokkrum mánuðum.

Ráðherrann tilkynnti um afsögn sína eftir neyðarfund í ríkisstjórn landsins í gær. Hann sagði öryggissveitir landsins hafa handtekið á annað hundrað mótmælendur vegna íkveikjunnar. Að minnsta kosti einn lét lífið í átökum við ræðismannsskrifstofuna og 30 særðust. Lögregla og vopnaðar hersveitir höfðu gætt skrifstofunnar vegna mótmælanna sem áttu að fara friðsamlega fram.

Reiði vegna skopmyndanna er einnig mikil í nágrannaríkinu Sýrlandi þar sem var kveikt í danska sendiráðinu í fyrradag. Bandaríkjamenn hafa segja Sýrledinga standa á bak við mótmælin í löndunum tveimur.

Múslimar hafa mótmælt skopmyndunum víða um heim síðasta sólahring.

Einn lét lífið og tveir særðust þegar til skotbardaga kom meðal mótmælenda í Austur-Afganistan í morgun. Lögregla telur að liðsmenn Talíbana og al-Kaída liðar hafi laumað sér í hóp mótmælenda og skotið á fólk.

Mörg hundruð múslimar mótmæltu skopmyndunum í morgun fyrir utan danska sendiráðið í Bangkok á Tælandi. Vegatálmi var reistur við hliðið að sendiráðinu og á annan tug lögreglumanna voru þar á verði. Sendiráðinu var lokað í morgun um óákveðinn tíma. Sendiherrann bauðst til að funda með mótmælendum en því var hafnað.

700 reiðir múslimar mótmæltu einnig á götum Auckland á Nýja Sjálandi í morgun en tvö dagblöð þar í landi hafa birt skopmyndirnar. Nýsjálenskir sendifulltrúar í löndum múslima hafa verið hvattir til að fara að öllu með gát.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×