Erlent

Hjálp þar sem neyðin er mest

Engum dylst að stærstur hluti heimsins lifir við fátækt. Þegar fullfrískir íbúar þeirra landa þar sem ástandið er verst eiga ekki til hnífs og skeiðar þá þarf enginn að gera sér grillur um að aðbúnaður fatlaðra sé með svipuðum hætti og Vesturlandabúar eiga að venjast. Alþjóðlegu samtökin Inclusion International hafa um árabil barist fyrir bættum hag fólks með þroskahömlun víða um heim, ekki síst í þróunarlöndunum, en í vikunni var forseti samtakanna, Diane Richler, stödd hér á landi. Fátækt bæði orsök og afleiðing Óvíða búa jafnmargir við einhvers konar fötlun og í þriðja heiminum. Í Afríku er einn af hverjum fimm fatlaður á einhvern hátt og segir Richler að orsakir þess liggi ekki hvað síst í erfiðum skilyrðum í álfunni. "Mörg börn fæðast þroskaheft vegna þess að mæður þeirra fá ekki næga næringu á meðgöngunni en jafnframt getur vannæring á æviárum barnsins leitt af sér þroskahömlun," segir Richler. Stríð leiða af sér líkamlega fötlun, svo og náttúruhamfarir og sjúkdómar. Þannig gera malaría og heilahimnubólga marga að öryrkjum í álfunni og á seinni árum hefur alnæmi bæst við. Aðbúnaður þeirra sem búa við fötlun í þróunarlöndunum er heldur bágborinn. Rétt eins og ófatlaðir fara þeir gjarnan á mis við hreint vatn, mat og húsaskjól en þar fyrir utan þeir settir til hliðar á flestum sviðum þjóðfélagsins. Richler bendir á að fátækt sé þannig bæði orsök og afleiðing fötlunar þar sem fatlaðir hafa nánast engin tækifæri til að afla sér menntunar. "Níutíu prósent barna sem ekki ganga skóla eru fötluð. Sameinuðu þjóðirnar leggja mikla áherslu á bætta menntun í þessum heimshluta en það gefur auga leið að ef ekki er reiknað með að fatlaðir geti gengið í skóla þá verður þessum markmiðum ekki náð. Því verður að bæta aðgang þeirra og aðbúnað í þessum efnum," segir Richler. Þroskaheftum stúlkum nauðgað Diane Richler segir að í mörgum samfélögum njóti fatlaðir umhyggju samborgara sinna, ekki síst þar sem að staða stjórfjölskyldunnar er sterk og fólk er vant að búa margt saman á einu heimili. Hins vegar má víða finna rótgróna fordóma í garð þeirra sem glíma við fötlun. Stundum er litið þannig á að fæðing þroskahefts barns sé refsing frá Guði fyrir einhverjar misgerðir. "Margar konur í Afríkur og Suður-Ameríku hafa verið hraktar af heimilum sínum með þroskaheft börn sín vegna þess að eiginmenn þeirra segja að fötlunin geti ekki verið frá þeim komin," segir Richler. Richler bendir jafnframt á skelfilega þróun sem orðið hefur í Afríku með uppgangi alnæmissjúkdómsins. "Þar hefur HIV-veiran breiðst hratt út, meðal annars vegna þeirrar hégilju að smitaðir menn geti læknast við að hafa samræði við óspjallaðar meyjar. Þroskaheftar stúlkur verða gjarnan fórnarlömb þessara manna sem nauðga þeim og smita af veikinni." Hlekkjuð við gluggann Aðspurð um hvað verði um einstæðu mæðurnar með fötluðu börnin segir Richler að þær séu í hreint hræðilegri stöðu þar sem þær verði að sjá sér og börnum sínum farborða en fá enga aðstoð við það. "Ég þekki dæmi af sex ára gamalli bólivískri stúlku sem var alvarlega þroskaheft. Á meðan móðir hennar vann fyrir heimilinu var litla telpan alein heima, hlekkjuð við gluggarimlana. Sem betur fer gripu systursamtök okkar í landinu inn í og komu stúlkunni í skóla. Þá fyrst fór hún að læra að tala og geta bjargað sér sjálf," segir Richler og bætir því við að því miður sé þetta dæmi alls ekki einstakt. Hvað getum við gert? Richler notaði tímann hér á landi til að kynna samtök sín og málstað þeirra fyrir stjórnvöldum og hitti meðal annars forsætisráðherra og forseta Íslands í því skyni. Enda þótt framlög Íslendingar til þróunarmála séu ekki ýkja há bendir hún á að þau hafi vaxið á síðustu árum. Richler telur að Íslendingar geti kennt öðrum þjóðum ýmislegt um hvernig búa megi að fötluðum, rétt eins og við höfum kennt fjarlægum þjóðum að veiða fisk og virkja hveri. Hún segir að viðbrögð hérlendra ráðamanna gefi tilefni til bjartsýni en hvetur jafnframt íslensku þjóðina til að leggjast á árarnar til að það verði að veruleika.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×