Innlent

Kenna atvinnulausum iðnaðarmönnum að varðveita gömul hús

Fjölmörg gömul hús á Laugavegi fela í sér mikil menningarverðmæti. Mynd/ Anton Brink.
Fjölmörg gömul hús á Laugavegi fela í sér mikil menningarverðmæti. Mynd/ Anton Brink.

Reykjavíkurborg mun leita samstarfs við ríkisvaldið, Vinnumálastofnun, Samtök iðnaðarins og aðra vegna sérstaks atvinnuátaksverkefnis til að hefja uppbyggingu og endurgerð sögufrægra eldri húsa í Reykjavík. Óskar Bergsson formaður borgarráðs segir að átakið verði byggt á reynslu Svía af svokölluðu Halland verkefni sem var kynnt á Hótel Sögu í gær. Tillaga þessa efnis verður flutt í borgarstjórn næstkomandi þriðjudag.

Fram kom á fundinum að í efnahagsþrengingum sem upp komu í Svíþjóð árið 1993 var farið af stað með atvinnuskapandi verkefni sem fólst í því að kenna atvinnulausum iðnaðarmönnum handbragð við að varðveita gömul hús. Áður en verkefnið fór af stað hafi tíu iðnaðarmenn verið sérmenntaðir í handbragði við að varðveita gömul hús, en í dag eru þeir um 1100 talsins.

Óskar Bergsson segir að átakið á Íslandi verði með svipuðu sniði og það sænska og markmiðið verði að treysta menningarauð borgarinnar í gegnum endurbyggingu, viðhald og verndun mikilvægra húsa í Reykjavík. ,,Með verkefninu geta skapast störf, samhliða því sem hægt verður að auka á menntun og reynslu fagstétta á borð við arkitekta, verkfræðinga og iðnaðarmenn við endurgerð gamalla íslenskra húsa".






Fleiri fréttir

Sjá meira


×