Erlent

Skorað á Natóher að hlífa borgurum

Fylgst með hernaði í lofti Bandrískir hermenn fylgjst með þyrlum beina skotum að svæðum sem talibanar hafa á valdi sínu.nordicphotos/AFP
Fylgst með hernaði í lofti Bandrískir hermenn fylgjst með þyrlum beina skotum að svæðum sem talibanar hafa á valdi sínu.nordicphotos/AFP

Afganistan, AP Öldungar í þorpinu Marjah í Helmand-héraði í Afganistan skora á hersveitir Natóríkjanna að hlífa almennum borgurum þegar stór árás verður gerð á þorpið.

Þúsundir íbúa hafa flúið þorpið, sem talibanar hafa haft á valdi sínu og nota sem eina helstu bækistöð sína í héraðinu.

Bandaríkjaher hefur vikum saman talað opinskátt um yfirvofandi árás á þorpið, en talibanar segjast ætla að svara af fullum krafti.

Undanfarna daga hefur vígbúnaður Bandaríkjahers umhverfis þorpið jafnt og þétt verið efldur, og þykir líklegt að innan fárra daga verði látið til skarar skríða.

Natóherinn í Afganistan vonast til þess að geta unnið þorpsbúa á sitt band fljótlega eftir að talibanarnir hafa verið hraktir burt. Meiningin er að veita þorpsbúum margvíslega aðstoð, meðal annars við uppbyggingu opinberrar þjónustu. Talið er að um 125 þúsund manns búi í Marjah og nágrenni, sem geti nýtt sér aðstoðina.

Talibanar hafa reynt að banna íbúunum að flýja þorpið, en Bandaríkjaher hefur leitað á öllum sem komist hafa út fyrir.

Öldungar þorpsins hafa miklar áhyggjur af afdrifum almennra íbúa í þorpinu þegar árásin hefst og bardagar brjótast út. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×